Nóróveirusýking í rénun
Tími frá smiti þar til einkenni koma fram eru 1-2 sólarhringar. Helstu einkenni nóróveirusýkingar eru niðurgangur og/eða uppköst sem fylgt geta kviðverkir, beinverkir, höfuðverkur og stundum vægur hiti. Sjúkdómurinn gengur í langflestum tilfellum yfir á einum til þremur sólarhringum án nokkurrar meðferðar.
Fréttatilkynning frá Sóttvarnalækni, Matvælaeftirliti Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur og Matvælastofnun:
Nóróveirusýkingin sem kom upp í Nýja Kaupþing banka og tengdum félögum
í Reykjavík í liðinni viku er í rénun. Alls er talið að um 250 manns
hafi veikst.
Niðurstöður rannsóknar
á vegum Heilbrigðseftirlits Reykjavíkur, Sóttvarnalæknis og
Matvælastofnunar benda til að í upphafi hafi smit dreifst til
starfsmanna með matvælum og í kjölfar þess átti sér stað smit manna á
milli. Óljóst er hvernig veiran barst í matinn.
Smitleiðir eru margar og getur veiran smitast beint manna á milli við snertingu. Uppköst eru bráðsmitandi og eru dæmi þess að veiran hafi borist í loftinu til fólks í nánasta umhverfi. Önnur algeng smitleið er með fæðu og vatni og er mengun matvæla frá sýktum einstaklingum algeng smitleið. Einnig geta matvæli mengast í framleiðslunni með menguðu vatni við vökvun eða skolun.
Gripið var til víðtækra ráðstafana í samráði við heilbrigðiseftirlitið og sóttvarnarlækni til að rjúfa ofannefndar smitleiðir og ekki er talin frekari hætta á smiti með matvælum innan fyrirtækisins.
Frekari upplýsingar veita:
Guðrún Sigmundsdóttir, Sóttvarnalækni
Óskar Ísfeld Sigurðsson, Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur