Fara í efni

Niðurstöður eftirlitsverkefnis um næringarmerkingar matvæla

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Út er komin skýrsla eftirlitsverkefnis um næringarmerkingar matvæla sem unnið var af Matvælastofnun og Heilbrigðiseftirliti sveitarfélaga.

Í skýrslunni kemur fram að þó næringarmerkingar séu víðast hvar í lagi, má finna töluvert af frávikum sem kalla á úrbætur fyrirtækja. Rétt er þó að halda því til haga að í sumum tilfellum getur verið eðlilegt að nokkur breytileiki sé í næringarinnihaldi vöru.

Mikilvægt er að fyrirtæki vandi til verka til að tryggja neytendum sem bestar upplýsingar um næringargildi. Auk þess að vera mikilvægar til að geta valið matvæli á upplýstan hátt, eru þær sérstaklega mikilvægar ýmsum sjúklingahópum og eru notaðar til útreikninga á spítölum svo dæmi séu tekin.

Verkefnið var unnið á tímabilinu september 2015 – febrúar 2016. Næringarmerkingar voru skoðaðar á 183 matvörum frá tæplega 80 fyrirtækjum og natríummælingar (saltmælingar) voru gerðar á 47 matvörum frá 37 fyrirtækjum.

Markmiðið með verkefninu var tvíþætt, annars vegar að auka þjálfun eftirlitsmanna í að skoða næringarmerkingar og hins vegar að kanna hvort næringarmerkingar sem eru á matvörum á markaði eru réttar.

Tilefni þess að vinna sérstakt eftirlitsverkefni um næringarmerkingar er meðal annars það að í desember 2016 verður skylt að merkja næringargildi á flestar forpakkaðar matvörur og því mikilvægt að efla þekkingu og þjálfun á þessu sviði.

Ítarefni:


Getum við bætt efni síðunnar?