Fara í efni

Neytendum stafar ekki hætta af bisfenól-A

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Matvælaöryggisstofnun Evrópu (EFSA) hefur lokið endurmati á heilsuáhrifum bisfenól-A og komist að þeirri niðurstöðu að neytendum, þ.m.t. ungbörnum, börnum og unglingum, stafi ekki hætta af bisfenól-A í því magni sem það er að finna í mat eða samsetningu matar og umhverfisþátta. Magnið er talið vera vel undir þolmörkum.

Þrátt fyrir að EFSA hafi lækkað þolmörkin (ásættanlega daglega neyslu/tolerable daily intake) úr 50 míkrógrömmum fyrir hvert kíló af líkamsþyngd (µg/kg/dag) í 4 µg/kg/dag, þá sýna niðurstöður rannsóknarinnar að mesta magn sem áætlað er að neytendur verði útsettir fyrir sé 3-5 sinnum minna en núgildandi þolmörk.

Bisfenól-A er notað við framleiðslu á snertiefnum matvæla, svo sem plasts og varnarhúðar innan á niðursuðudósum. Efnið er einnig að finna í ryki, snyrtivörum og kvittunarstrimlum (thermal paper) t.d. úr posum og búðarkössum, Efnið getur borist úr umbúðum í mat-, drykkjar- og snyrtivörur. EFSA ákvað að endurmeta möguleg heilsuáhrif bisfenól-A í ljósi þess fjölda nýlegra rannsókna sem birtar hafa verið um áhrif efnisins. Nánari upplýsingar um mat EFSA er að finna hér að neðan.

Ítarefni


Getum við bætt efni síðunnar?