Fara í efni

Neysla á hrefnukjöti og öðru sjávarfangi fyrir barnshafandi konur

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

- Tenging í enska útgáfu -.


Þar sem hægt er að nálgast hrefnukjöt í verslunum hafa vaknað spurningar um hvort óhætt sé fyrir barnshafandi konur og konur með börn á brjósti að borða hrefnukjöt vegna hugsanlegrar mengunar af kvikasilfri og þrávirkum lífrænum efnum eins og PCB-efnum. Af þessu tilefni senda ofangreindar stofnanir frá sér eftirfarandi greinargerð:


Kvikasilfur er að finna í öllu sjávarfangi af náttúrulegum orsökum og hefur ávallt verið þar til staðar. Stærsta náttúrulega uppspretta kvikasilfurs er álitin vera eldgos en veðrun bergs á einnig þátt í náttúrulegri losun í umhverfið. Iðnaður og önnur starfsemi manna veldur einnig losun kvikasilfurs í loft, höf og vötn. Í seti ummyndast kvikasilfur í kvikasilfursamband, metýlkvikasilfur, sem er talsvert eitraðra en það sem losað er og það er þetta form kvikasilfurs sem safnast að einhverju leyti í öll sjávardýr. Hæstan styrk kvikasilfurs er jafnan að finna í ránfiskum, sem eru efstir í fæðukeðjunni og því meir sem þeir verða eldri.


Á Íslandi sem og öðrum löndum gilda reglur um hámarksmagn aðskotaefna í matvælum. Hafi matvæli hærri styrk en þar um getur má ekki dreifa eða selja viðkomandi vöru. Samkvæmt reglugerðum nr. 661/2003 og 662/2003 sem fjalla um aðskotaefni í matvælum er um tvö hámarksgildi fyrir kvikasilfur að ræða, annars vegar lægra hámarksgildi fyrir sjávarfang, sem oft er neytt, og hins vegar hærra hámarksgildi fyrir sjávarfang sem sjaldan er neytt eins og hákarl og mjög stóra lúðu (stórflyðru). Íslenskt sjávarfang, sem við borðum hvað mest af er langt undir lægra hámarksgildinu fyrir kvikasilfur, t.d. ýsa, rækja, þorskur, grálúða, lax, smálúða, lúða (minni en 1m eða 12 kg), ýmsar kolategundir og svo mætti lengi telja. Þessa sjávarfangs má neyta eins oft og fólk kýs að gera og er barnshafandi konum eindregið ráðlagt, rétt eins og öðrum landsmönnum, að borða fisk sem oftast eða a.m.k. tvisvar sem aðalmáltíð á viku.


Hrefna er skíðishvalur og við Ísland er helsta einstaka fæðutegund hennar talin ljósáta en hún nærist einnig á loðnu og sandsíli háð framboði, stað og tíma. Styrkur mengunarefna ætti því ekki að vera hár í hrefnunni þar sem hún er nokkuð neðarlega í fæðukeðjunni, ólíkt tannhvölum sem eru veiddir í Færeyjum (grindhvalur). Nýlegar norskar niðurstöður sýna að magn kvikasilfurs í hrefnukjöti er í langflestum tilfellum undir lægra hámarksgildi fyrir kvikasilfur. Norskar niðurstöður sýna einnig að styrkur þrávirkra lífrænna efna eins PCB-efna og díoxína í hrefnukjöti er vel undir þeim mörkum sem sett hafa verið, enda er kjötið sjálft magurt en þessi efni safnast að mestu fyrir í fituvef.


Ástæða er til að ætla að hrefna sem veidd er á íslenskum hafsvæðum sé ekki frábrugðin þeirri hrefnu sem Norðmenn hafa rannsakað þar sem þeir rannsökuðu hrefnur frá norðurslóð (t.d. í Barentshafi, Svalbarða og Jan Mayen). Ítarlegar rannsóknir á íslensku hrefnunni eru hafnar hvað þetta varðar og er niðurstaðna að vænta innan skamms.


Víða erlendis eru barnshafandi konur varaðar við að borða ákveðnar tegundir sjávarfangs og fer það eftir staðháttum. Á sumum hafsvæðum getur fiskur innihaldið mikið magn af mengunarefnum sem geta verið skaðleg ungviði og ófæddum börnum. Hér er yfirleitt um að ræða nokkur afmörkuð hafsvæði, vötn og ár og því eru gefnar ráðleggingar til kvenna þar sem við á um hvaða fisktegundir beri að varast meðan á meðgöngu og brjóstagjöf stendur.


Í öðrum tilvikum eiga þessar ráðleggingar við um ákveðið sjávarfang, oftast staðbundið, sem vegna stöðu sinnar í fæðukeðjunni geta innihaldið háan styrk aðskotaefna. Þessar tegundir t.d. sverðfiskur, seglfiskar, flögufiskur, kóngamakríll og grindhvalur hafa ekki verið í íslenskum matvöruverslunum svo vitað sé.


Áður en haldið er í ferðalög erlendis er barnshafandi konum og konum með börn á brjósti bent á að kynna sér ráðleggingar heilbrigðisyfirvalda í viðkomandi löndum varðandi fiskneyslu. Á Íslandi eiga slíkar ráðleggingar sjaldnast við en þó má taka eftirfarandi fram:


Almennt er öryggi neytenda vel tryggt með ofangreindum hámarksgildum fyrir kvikasilfur.


Hins vegar er fóstri í móðurkviði og nýbura meiri hætta búin af völdum kvikasilfurs og af þeim sökum hefur Alþjóðaheilbrigðisstofnunin nýlega (2003) lækkað inntökumörk fyrir kvikasilfur. Minnka má mögulega hættu sem gæti stafað af neyslu ákveðins sjávarfangs með því að sneiða framhjá stöku tegundum eða takmarka neyslu þess. Sjávarfang sem um ræðir er þó innan löglegra marka hvað varðar hámarksmagn aðskotaefna.


Miðað við fyrirliggjandi upplýsingar um sjávarfang á íslenskum markaði og niðurstöður um hrefnu í veiðum Norðmanna geta barnshafandi konur og konur með börn á brjósti takmarkað við sig neyslu með eftirfarandi hætti:


Tvisvar í viku eða sjaldnar: túnfiskur í dós, hrefnukjöt og egg svartfugls.

Einu sinni í viku eða sjaldnar: túnfisksteikur, búrfiskur.

Aldrei: hákarl, fýll, fýlsegg, sverðfiskur og stórflyðra (stærri en 1,8m eða 60 kg, -slíkan fisk er þó sjaldan að finna í verslunum). Þetta gildir líka fyrir börn yngri en 7 ára.


Neysla á þorskalifur er ekki talin æskileg fyrir áðurnefndan hóp kvenna og börn yngri en 7 ára vegna þrávirkra lífrænna aðskotaefna. Þetta gildir þó alls ekki fyrir lýsi, hvorki þorskalýsi né annað lýsi á markaði þar sem aðskotaefnin eru hreinsuð úr vörunni við framleiðslu.


Það skal tekið fram í lokin að fiskur er mjög holl fæða sem inniheldur mörg mikilvæg næringarefni eins og n-3 fjölómettaðar fitusýrur, D-vítamín, joð og selen. Þess fyrir utan er fiskur mjög próteinríkur. Því er barnshafandi konum eindregið ráðlagt, rétt eins og öðrum landsmönnum að borða fisk sem oftast eða a.m.k. tvisvar sem aðalmáltíð í viku.



Getum við bætt efni síðunnar?