Fara í efni

Músagangur og aflífun meindýra - hvað samræmist lögum

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Músagangur og aflífun meindýra - hvað samræmist lögum

 Nú berast víða af landinu fréttir um óvanalega mikinn músagang í húsum og má vera að tíðarfar þetta árið spili þar eitthvað hlutverk og vill Matvælastofnun af gefnu tilefni ítreka frétt frá 2014 sem fjallaði um eyðingu og aflífun meindýra, m.a. með notkun drekkingargildra, en notkun þeirra brýtur gegn ákvæðum laga nr. 55/2013 um velferð dýra.

Skv. lögum um velferð dýra eru dýr skilgreind sem skyni gæddar verur og á það einnig við um þau dýr sem eru flokkuð sem meindýr, þ.m.t. mýs. Lögin kveða einnig á um að við eyðingu meindýra er óheimilt að beita aðferðum sem valda þeim óþarfa limlestingum og kvölum og að óheimilt sé að aflífa dýr með því að drekkja þeim. Þá skal tryggja að útrýmingarefni valdi ekki tjóni á öðrum dýrum en meindýrum.

Til eru vandaðar felligildrur sem tryggja yfirleitt skjóta aflífun með sem minnstum sársauka. Þó þarf að vitja þeirra daglega bæði til að aflífa þau dýr sem e.t.v. lentu ekki rétt í gildrunni og einnig til að hún sé virk. Svokölluð músahótel eru gildrur sem miða að því að fanga mýsnar án þess að valda þeim skaða. Slíkra gildra þarf einnig að vitja daglega til að aflífa mannúðlega þau dýr sem þar lenda (t.d. með kröftugu höfuðhöggi) eða sleppa músunum út ef þess er óskað.  Það brýtur í bága við lög um velferð dýra að láta mýs vera langtímum saman í slíkri gildru og jafnvel svelta og þorna til dauða.

Límgildrur/bakkar hafa verið að ryðja sér rúms þar sem þær þykja skilvirkar í veiðunum, en dauðastríð þeirra dýra sem lenda í slíkum gildrum er átakanlegt. Með notkun límgildra er aflífun meindýra ekki með eins skjótum og sársaukalausum hætti og unnt er og geta límgildrur valdið óþarfa limlestingum og kvölum. Límgildrur notaðar til meindýravarna er þ.a.l. brot á dýravelferðarlögum.

Matvælastofnun beinir því til allra að nota einungis meindýravarnir og aðferðir sem uppfylla ákvæði laga um aflífun dýra og eyðingu meindýra. Matvælastofnun er heimilt skv. 42. gr. laga um velferð dýra að leggja stjórnvaldssektir á aðila sem brjóta gegn ákvæðum laganna. 

Ítarefni:

Lög nr 55/2013 um velferð dýra http://www.althingi.is/lagas/147/2013055.html

Lög nr 64/1994 um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum  http://www.althingi.is/lagas/nuna/1994064.html


Getum við bætt efni síðunnar?