Fara í efni

Munur á kælingu á milli fisktegunda

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.


  Í sumar hefur verið í gangi átak á vegum Matvælastofnunar og Fiskistofu til að fylgjast með aflameðferð og hitastigi í lönduðum afla. Einn af þeim þáttum sem hægt er að skoða út frá gögnunum er hvort munur sé á meðhöndlun aflans eftir því hver fisktegundin er.

Í myndinni að neðan má sjá hitastigsmælingar í mismunandi fisktegundum við löndun í sumar.Út frá þessari mynd má sjá að það er greinilegur munur á því hversu vel aflinn er kældur. T.d. þá er meðalhitinn í lönduðum þorskafla 3,2°C en er 3,9°C í undirmáls þorski. Meðalhiti í lönduðum ýsuafla er 2,9°C á meðan meðalhitinn í steinbít og karfa er 4,4°C og 4,7°C. Hvort að þetta sé á einhvern hátt að endurspegla markaðsverð skal ósagt látið.

Einnig er áhugavert  að skoða hvort munur sé á milli veiðisvæða, en eitt af því sem skráð var við öflun gagnanna var á hvaða strandveiðisvæði aflinn var veiddur.

Strandveiðisvæðin eru fjögur:

  • Svæði A: Eyja- og Miklaholtshreppur til Súðavíkurhrepps
  • Svæði B: Strandabyggð til Grýtubakkahrepps.
  • Svæði C: Þingeyjarsveit til Djúpavogshrepps.
  • Svæði D: Sveitarfélagið Hornafjörður til Borgarbyggðar


Niðurstöður mælinganna virðast sýna að svæði B kemur einna best út og svæði D síst. Þetta kemur heim og saman við mismunandi hitastig sjávar, t.d. þá var hinn 1.júlí síðastliðinn hitastigið við Grímsey 6,2°C en á sama tíma 9,8°C við Reykjavík. Það er því mjög mikilvægt fyrir þá sem eru á þeim svæðum sem sjórinn er hlýrri (svæði A og D) að gera sér grein fyrir þessu og hafa nægjanlegt magn af ís um borð. Þrátt fyrir sum svæði komi betur út en önnur þá er mikilvægt að það komi fram að kælingu er ábótavant á öllum svæðum. Matvælastofnun skorar því á sjómenn að huga betur að kælingu alls afla.Getum við bætt efni síðunnar?