Merkingar matvæla - þessum upplýsingum átt þú rétt á!
Frétt -
27.01.2010
Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.
|
Fimmtudaginn
4. febrúar munu matvælafræðingar frá MAST og Matís kenna námskeiðið
"Merkingar matvæla - þessum upplýsingum átt þú rétt á". Námskeiðið er
haldið af Endurmenntun Háskóla Íslands í samstarfi við Matvæla- og
næringarfræðafélag Íslands (MNÍ). Námskeiðið er opið öllum sem áhuga hafa á merkingum matvæla og hentar einnig þeim sem nota þær í störfum sínum, s.s. í mötuneytum, framleiðslu- og innflutningsfyrirtækjum. Markmið með námskeiðinu er að gera þátttakendur færa um að túlka merkingar matvæla og veita þeim skilning á innihaldi þeirra. |
Merkingar á matvælum eru oft einu upplýsingarnar sem við höfum í höndunum til þess að velja matinn okkar á upplýstan hátt. Merkingarnar þurfa að fylgja ákveðnum reglum, sem segja til um hvað þarf að koma fram. Þær eiga að vera skýrar og ekki villa um fyrir okkur. Innihaldslýsing og næringargildisupplýsingar eru mikilvægar til þess að geta borið saman innihaldsefni, orkuinnihald og bætiefni matvæla og kunna að vera forsenda þess að við getum sett saman heilsusamlegt mataræði.
Farið verður yfir gildandi reglur um merkingar matvæla eins og þær snúa að neytendum. Merkingar á umbúðum matvæla verða skoðaðar og komið verður inn á hvernig á að merkja ofnæmis- og óþolsvalda. Gerð verður grein fyrir hinum ýmsu merkjum á matvælum: hollustumerki, glas- og gaffalmerkið, lífræn vottunarmerki, Fair Trade o.fl. Skýrt verður hvernig merkingar á innihaldi, næringargildi og geymsluþoli eru unnar. Tekin verða dæmi um vinnslu merkinga og þátttakendur vinna verkefni. Sýnd verður notkun á íslenska gagnagrunninum um efnainnihald matvæla (ÍSGEM) og vefforritinu hvaderimatnum.is, auk fleiri forrita og aðferða við útreikninga.
Kennsla / umsjón:
- Jónína Þ. Stefánsdóttir, matvælafræðingur hjá Matvælastofnun (MAST)
- Ólafur Reykdal, matvælafræðingur hjá Matís
Fim. 4 feb. kl 18:00 - 21:00. Verð: 8.500 kr. Meðlimum MNÍ býðst námskeiðið á 5.950 kr. ef tekin er fram félagsaðild að MNÍ við skráningu.