Fara í efni

Merking nautgripa - leiðbeiningar

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Að gefnu tilefni vill Matvælastofnun vekja athygli á reglum sem gilda um merkingar nautgripa. Sendar voru út leiðbeiningar til allra sláturleyfishafa síðastliðið haust og þeir beðnir um að koma þeim til sinna viðskiptavina til þess að skýra hvaða reglur eru í gildi varðandi merkingar nautgripa og hvernig þær eru túlkaðar. Ástæða fyrir gerð þessara leiðbeininga voru athugasemdir sem eftirlitsmenn ESA (eftirlitsstofnun EFTA) gerðu við eftirlit í sláturhúsum haustið 2019 sem varð til þess að reglur voru hertar varðandi merkingar nautgripa við komu í sláturhús.

Um merkingar búfjár gildir reglugerð nr. 916/2012. Markmið hennar er að tryggja rekjanleika búfjárafurða frá upprunahjörð og/eða fæðingu viðkomandi dýrs til sölu afurða og skapa með því grundvöll að markvissu matvæla- og búfjáreftirliti, eftirliti með flutningum dýra, skráningu búfjársjúkdóma og meðhöndlun þeirra, sbr. 1. gr. reglugerðarinnar.

Í 6. gr. reglugerðarinnar er gerð krafa um að nautgripir skuli merktir með forprentuðu plötumerki í bæði eyru innan 20 daga frá fæðingu. Bæði framhlið og bakhlið merkja (þ.e. báðar blöðkurnar) skulu vera forprentaðar. Samkvæmt ákvæðinu skulu eftirfarandi upplýsingar koma fram á merkjunum: 1) YD-einkennismerki Matvælastofnunar, 2) IS-einkennismerki Íslands, 3) búsnúmer og 4) gripanúmer. Þá segir í 4. gr. að umráðamaður búfjár beri ábyrgð á að allt búfé sem alið er á hans vegum sé merkt innan tilskilins tíma með viðurkenndu merki, sem fylgja á dýrinu alla ævi. Samkvæmt ákvæðinu ber umsjónarmanni að panta nýtt forprentað plötumerki þar sem fram koma sömu upplýsingar og áður og setja í viðkomandi grip ef merkið dettur úr gripnum. Framleiðandi merkjanna hefur upplýst að afgreiðslufrestur sé 7 til 10 dagar.

Forpentuð plötumerki eru því aðeins lögleg að allar ofangreindar upplýsingar séu prentaðar á merkið.  Ekki er leyfilegt að ein blaðka merkisins sé handskrifuð.  Ef umráðamenn nautgripa vilja handskrifa nafn eða aðrar upplýsingar verður að gera það á forprentuðu blöðkurnar, gjarnan á bakhlið einhverrar blöðkunnar, þannig að handskrifuðu upplýsingarnar skyggi ekki á þær forprentuðu.  Krafan er að upplýsingarnar á merkjunum séu óafmáanlegar og ekki er litið svo á að handskrifaður texti á merki sé óafmáanlegur. Það á alltaf að vera hægt að sjá forprentuðu upplýsingarnar á merkjunum hvort heldur sem er framan frá eða aftan frá. Samþykkt er að gripir séu sendir til slátrunar með löglegt merki í öðru eyranu og gat í hinu.

Athygli er vakin á því að svokölluð neyðarmerki/bráðabirgðamerki, þ.e. merki með forprentuðu búsnúmeri, en þar sem gripanúmerið vantar, eru ekki lögleg merki. Tilgangur þeirra er að nota þau í gripi sem týnt hafa merki á meðan beðið er eftir endurprentun á forprentaða merkinu.  Er þetta til þess að koma í veg fyrir að ruglingur verði á gripum ef fleiri en einn gripur í stíu týnir merki á sama tíma. 

Mögulegt er að veita undanþágu frá 6. gr. reglugerðarinnar, en beiðni um slíkt þarf að vera send með a.m.k. eins sólarhrings fyrirvara til héraðsdýralæknis í umdæmi viðkomandi sláturhúss. Í beiðninni verður að koma fram: 1) nafn og bú innleggjanda, 2) búsnúmer og einstaklingsnúmer viðkomandi grips, 3) lýsing á gripnum eins og hún er í Huppu og/eða mynd af gripnum. Þá þarf að koma fram skýring á því hvers vegna nauðsynlegt er að sækja um undanþáguna. Fyrirvarinn er notaður af hálfu starfsmanna Matvælastofnunar til að skoða, meta og skjalfesta upplýsingar um hvort viðkomandi gripur er skráður í Huppu, hvort hann komi frá viðkomandi búi innleggjanda og hvort gripurinn sé á afurðarfresti, þ.e. hvort hann hafi verið meðhöndlaður með lyfjum sem koma í veg fyrir að hægt sé að nýta afurðir af gripnum til manneldis. Jafnframt er fyrirvarinn notaður til að meta hvort að fyrirliggjandi undanþágubeiðni eigi rétt á sér – en til þess að hægt sé að fallast á að ómerktir gripir eða gripir sem ekki eru merktir í samræmi við regluverkið fari í matvælakeðjuna þurfa að liggja fyrir einhverjar málefnalegar ástæður. Ef gripur týnir báðum merkjum er í flestum tilfellum litið svo á að hann geti beðið næsta skráða sláturdags og bóndinn sendir annan grip af sláturlistanum í staðinn. Ef fullvaxið naut týnir merkjum og ekki er til tökubás eða annar samsvarandi tækjabúnaður til þess að endurmerkja nautið á tryggan hátt á viðkomandi bæ, er gjarnan veitt undanþága þegar bóndi sækir um slíkt í fyrsta eða annað skipti. En séu menn að ala naut til slátrunar má gera ráð fyrir að þeir komi sér upp aðstöðu til þess að sinna þeim gripum til framtíðar.

Ítarefni

Upplýsingasíða MAST um merkingar og skráningar nautgripa


Getum við bætt efni síðunnar?