Fara í efni

Matvælastofnun varar við fæðubótarefninu RHINO 7

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Matvælastofnun barst nýlega tilkynning í gegnum viðvörunarkerfi Lyfjastofnunar um fæðubótarefni frá Bandaríkjum sem innihalda lyfjavirk efni. Um er að ræða fæðubótarefnin RHINO 7 og RHINO 7 Platinum sem markaðssett eru sem kynörvandi fæðubótarefni og/eða sem fæðubótarefni gegn ristruflunum. Fæðubótarefnin innihalda efnin Desmethyl carbondenafil og Dapoxetine sem geta verið skaðleg neytendum.

Efnin eru ekki tilgreind í innihaldslýsingu en í ljósi þess að efnin hafa greinst í vörunum varar bandaríska matvæla- og lyfjastofnunin (Food and Drug Administration, FDA) við neyslu á þessum vörum. Umræddar vörur eru framleiddar og seldar í Bandaríkjum þar sem verið er að innkalla þær af markaði.

Efnið Desmethyl carbondenafil getur valdið lækkun á blóðþrýstingi og verið hættulegt fyrir fólk sem tekur önnur lyf sem innihalda nítróglýserín. Dapoxetín hefur ekki verið samþykkt af FDA vegna þess að ekki hefur verið sýnt fram á öryggi þess eða virkni. 

Rhino 7

Samkvæmt 9. gr. reglugerðar nr. 624/2004 um fæðubótarefni skulu innflutningsaðilar tilkynna markaðssetningu þeirra til Matvælastofnunar. Matvælastofnun hefur ekki fengið tilkynningar um umræddar vörur en getur ekki útilokað að þær séu í umferð á Íslandi. 

Matvælastofnun vill því hvetja innflutningsaðila til að hafa samband við stofnunina ef þeim er kunnugt um þessar vörur á íslenskum markaði. Eins vill stofnunin vara einstaklinga sem panta fæðubótarefni á netinu við þessu fæðubótarefni. 

Ef einhverjir eru með umrædda vöru í sínum fórum, þá eru þeir beðnir um að neyta hennar ekki og að senda Matvælastofnun upplýsingar á netfangið mast@mast.is um með hvaða hætti varan var keypt.

Ítarefni


Getum við bætt efni síðunnar?