Fara í efni

Matvælastofnun varar við fæðubótarefninu fortodol

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

 

Fortodol er fæðubótarefni sem unnt er að kaupa gegnum internetið og hefur einnig verið fáanlegt meðal annars í ýmsum heilsubúðum í Svíþjóð, Noregi og Danmörku.  Fortodol hefur ekki verið tilkynnt til Matvælastofnunar (innflutning / markaðssetningu fæðubótarefna hér á landi ber að tilkynna til Matvælastofnunar) og er eftir því sem næst verður komist ekki á almennum markaði hér á landi. 

Fortodol er ætlað sem vægt verkjastillandi efni við lið-, vöðva- og höfuðverkjum. Sænsku og norsku matvæla- og lyfjastofnanirnar hafa gefið út viðvörun við efninu og hafa ákveðið að stöðva dreifingu þess nú þegar. Danska matvælastofnunin hvetur neytendur efnisins þar í landi til að hætta notkun þar til varan sem þar er á markaði hefur verið efnagreind en innflytjandi efnisins í Danmörku segir samsetningu þess vera aðra en efnisins sem er á markaði í Svíþjóð.


Matvælastofnun barst einnig tilkynning í gegnum evrópska viðvörunarkerfið RASFF (Rapid Alert System for Food and Feed) um að Fortodol innihaldi efnið Nimesulid sem er ekki heimilt í fæðubótarefnum og getur verið skaðlegt heilsu.

Í Svíþjóð hafa fjögur alvarleg tilfelli lifrarbilana og þar af eitt dauðsfall, verið tengt við notkun Fortodol. Í Noregi hefur eitt dauðsfall og fimm tilfelli lifrarskaða verið tengt við efnið.

Í innihaldslýsingu vörunnar kemur fram að hún innihaldi útdrátt (extract) af jurtinni Curcuma longa (Túmerik) og í sænsku útgáfunni er einnig amínósýran fenýlalanín. Sænska lyfjastofnunin hefur nú greint lyfið Nimesulid í tveimur af níu vörum sem ganga undir nafninu Fortodol. Nimesulid er bólgueyðandi lyf sem er ekki er notað hér á landi né heldur í Noregi og Svíþjóð sökum slæmra aukaverkana m.a. lifrarskaða.

Matvælastofnun hvetur þá sem kunna að taka inn Fortodol að hætta notkun þess


Ef þeir sem tekið hafa Fortodol hafa einhver einkenni sem benda til lifrarskaða (þreyta, lystarleysi, gulleit húð og augu eða verkir í efri hluta kviðarhols ásamt uppköstum eða dökku þvagi) eru þeir hvattir til að leita læknis.Tilkynningar frá matvæla- og lyfjastofnunum Svíþjóðar, Noregs og Danmerkur:


Getum við bætt efni síðunnar?