Fara í efni

Matvælastofnun tekur yfir eftirlit með sjávarafurðum

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Innleiðing nýrrar matvælalöggjafar og reglna um hollustuhætti og opinbert matvælaeftirlit fyrr á þessu ári hafði í för með sér endurskoðun á núverandi fyrirkomulagi eftirlits með sjávarafurðum sem nú er í höndum faggiltra skoðunarstofa, auk Matvælastofnunar. Vega þurfti kosti og galla þess fyrirkomulags og hefur nú verið tekin ákvörðun um að Matvælastofnun (MAST) annist þetta eftirlit frá og með 1. mars 2011.  Með innleiðingu matvælalöggjafarinnar og nýrra reglna um hollustuhætti og eftirlit, sem tóku gildi fyrir sjávarafurðir 1. mars 2010, voru sett ný ákvæði um fyrirkomulag eftirlits með sjávarafurðum. Því þarf að endurskoða núverandi fyrirkomulag til að uppfylla kröfur löggjafarinnar og skal nýrri skipan eftirlits komið á þann 1. mars 2011.

Í núverandi fyrirkomulagi annast faggiltar skoðunarstofur framkvæmd reglubundins eftirlits í fiskvinnslufyrirtækjum og vinnsluskipum auk eftirlits með meðferð afla og hreinlæti um borð í stærri veiðiskipum. Þegar skoðunarstofur verða varar við ítrekuð eða alvarleg frávik er málinu vísað til MAST, sem fylgir því eftir þar til úrlausn fæst.

Við ákvörðunartöku MAST um framtíðarskipan eftirlits voru teknir saman kostir og gallar við núverandi fyrirkomulag með tilliti til skilvirkni, trúverðugleika, kostnaðar og annarra þátta. Þegar skoðunarstofur annast hið reglubundna eftirlit, minnkar óhjákvæmilega heildaryfirsýn stofnunarinnar yfir stöðu greinarinnar.  Með breyttri matvælalöggjöf skal stofnunin ákveða tíðni og umfang eftirlits hjá hverjum eftirlitsþega út frá stöðu hans og árangri og er því nauðsynlegt að stofnunin hafi sem besta yfirsýn. 


Fulltrúar MAST  funduðu með hagmunaaðilum og skoðunarstofum þar sem farið var yfir rök með og á móti núverandi eftirlitsframkvæmd. Málið var einnig kynnt fyrir sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu. Að lokinni úrvinnslu gagna er það álit MAST að hagsmuna stjórnvalda og eftirlitsþega verði betur gætt með því að stofnunin annist sjálf reglubundið eftirlit í fiskvinnslum og skipum.

Nýtt fyrirkomulag eftirlits með sjávarafurðum verður kynnt á vefsíðu Matvælastofnunar áður en langt um líður. Nánari upplýsingar veita Sigurður Örn Hansson og Garðar Sverrisson hjá MAST í síma 530-4800.


Getum við bætt efni síðunnar?