Fara í efni

Matvælastofnun sýknuð af kröfu hundaeiganda

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Á árinu 2013 synjaði Matvælastofnun Íslendingi búsettum í Noregi um leyfi til að flytja hund sinn til Íslands, en hann var að flytja búferlum til Íslands ásamt fjölskyldu sinni eftir að hafa búið í Noregi um nokkurra ára skeið. Hundaeigandinn kærði synjunina til æðra stjórnvalds en það stjórnvald hafnaði kröfum hundaeigandans og staðfesti þar með synjun Matvælastofnunar. Hann höfðaði þá dómsmál gegn Matvælastofnun og krafðist þess að synjunin yrði felld úr gildi.

Í dóminum kemur fram að samkv. gildandi lögum sé innflutningur hvers kyns dýra óheimill. Í lögunum er Matvælastofnun reyndar veitt heimild til að veita undanþágur frá banninu en frjáls innflutningur gæludýra er ekki meginreglan.

Ástæðan fyrir synjun Matvælastofnunar var sú að um var að ræða hund af tegundinni "English Bull Terrier" en það er mat sérfræðinga stofnunarinnar að hundar af þessari tegund geti verið hættulegir.

Dómurinn taldi bann stofnunarinnar standast. Skýrt væri á hverju það byggðist og hundaeigandanum hefði ekki tekist að hnekkja áliti Matvælastofnunar með gögnum. Hundaeigandinn lagði fram fyrir dómi útprentanir af erlendum heimasíðum máli sínu til stuðnings sem dómurinn taldi ekki duga. Hundaeigandinn hefði þurft að afla matsgerðar óvilhallra manna til þess að freista þess að sanna mál sitt. Það gerði hann ekki. Matvælastofnun hefði tekið málefnalega afstöðu til umsóknar hundaeigands og byggt niðurstöðu sína á lögum. Matvælastofnun var því sýknuð af kröfu hundaeigandans. 


Getum við bætt efni síðunnar?