Fara í efni

Matvælastofnun fagnar heimild til að birta niðurstöður áburðareftirlits

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

  Matvælastofnun fagnar útgáfu reglugerðar í gær sem heimilar stofnunin að birta upplýsingar um niðurstöður úr eftirliti með áburði sem er á markaði hérlendis. Í síðustu viku sendi Matvælastofnun sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu tillögur um breytingar á reglugerð um birtingu niðurstaðna úr áburðareftirliti sem myndi gefa Matvælastofnun víðtækari heimild til birtinga en eldri reglur kváðu á um. Skv. þeim bar Matvælastofnun að birta skýrslu með niðurstöðum úr öllum efna- og örverugreiningum í lok hvers árs.

Ný reglugerð veitir hinsvegar Matvælastofnun heimild til upplýsingagjafar um einstakar áburðartegundir og áburðarfyrirtæki eins fljótt og unnt er í eftirfarandi tilvikum:


  • Þegar niðurstöður úr efna- og örverugreiningum leiða í ljós að áburður er ekki í samræmi við vörulýsingu eða ákvæði laga nr. 22/1994 um eftirlit með fóðri, áburði og sáðvöru eða reglugerða settra á grundvelli þeirra.
  • Þegar niðurstöður leiða til þess að Matvælastofnun gefur fyrirmæli um afmengun, takmarkar framleiðslu eða markaðssetningu, leggur hald á eða fer fram á förgun á áburði.
  • Upplýsingum um aðgerðir Matvælastofnunar eða áburðarfyrirtækja þegar áburður uppfyllir ekki kröfur um öryggi áburðar.


Þá segir ennfremur í reglugerðinni að birting niðurstaðna skuli fara fram á heimasíðu stofnunarinnar og að stjórnsýslukæra aðila til máls til ráðherra fresti ekki birtingu. Að mati stofnunarinnar er hér stigið stórt skref til að tryggja heimildir til að vinna með og birta upplýsingar úr áburðareftirliti með víðtækari og skilvirkari hætti en verið hefur. Þessi breyting mun þannig tryggja að upplýsingum um áburð sem uppfyllir ekki skilyrði laga og reglugerða eða vörulýsingar seljenda verður komið til kaupenda og notenda áburðar fyrr en áður hefur verið.

Ítarefni
Getum við bætt efni síðunnar?