Fara í efni

Matvælaöryggisstofnun Evrópu tekur afstöðu til einræktunar dýra

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Matvælaöryggisstofnun Evrópu (EFSA) hefur gefið frá sér vísindaálit um einræktun dýra. Í álitinu kemur meðal annars fram að einræktun geti haft alvarleg og stundum banvæn áhrif á heilsu klóna en að ekkert bendi til að kjöt- og mjólkurafurðir unnar úr heilbrigðum einræktuðum dýrum og afkvæmum þeirra hafi neikvæð áhrif á heilsu manna eða umhverfi. Er sú ályktun háð því skilyrði að afurðir séu fengnar úr dýrum sem standist reglugerðir um dýraheilbrigði og matvælaöryggi en bent er á að skortur á samræmdum gögnum leiði til óvissu í áhættumati. Álitið staðfestir að algengasta einræktunaraðferðin hafi skilað af sér heilbrigðum dýrum sem séu ekki frábrugðin dýrum ræktuðum með hefðbundnum aðferðum hvað snertir staðla um líkamsbyggingu, hegðun og klínískt ástand. Álitið nær eingöngu til svína og nautgripa þar sem ekki lágu fyrir nægilegar upplýsingar um einræktun annarra dýrategunda.
Stofnunin mælir með ströngu eftirliti með heilsu einræktaðra dýra og að áhættumat verði framkvæmt fyrir aðrar nytjategundir um leið og fullnægjandi upplýsingar liggja fyrir. Hún hvetur einnig til frekari rannsókna á heilsubresti klóna, einkum á meðgöngu og eftir burð þar sem dánartíðni er hæst. Jafnframt er mælt með frekari rannsóknum á ónæmi og hegðunarmynstri dýra, sem og almennu heilbrigði og velferð þeirra, undir hefðbundnum búrekstursskilyrðum.

Matvælastofnun vill benda á að afurðir úr einræktuðum dýrum eru ekki komin á markað og að litið verði á þær sem nýfæði.

Nánari upplýsingar um álitið er að finna hér.


Getum við bætt efni síðunnar?