Matvælaframleiðsla í breyttum heimi og áhrif ESB-aðildar
Frétt -
09.02.2009
Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.
Hið árlega Fræðaþing landbúnaðarins 2009 verður haldið dagana 12. og 13. febrúar nk. í ráðstefnusölum á 2. hæð Radisson SAS Hótel Sögu. Setning og sameiginleg dagskrá að morgni fyrri dagsins verður í ráðstefnusal í húsi Íslenskrar erfðagreiningar að Sturlugötu 8.
![]() |
Að venju býður Fræðaþingið upp á umfjöllun og miðlun á
fjölbreyttu faglegu efni í mismunandi málstofum, en þessi vettvangur
hefur í áranna rás þróast í að vera mikilvirkasta miðlunarleið fyrir
niðurstöður fjölbreytts rannsókna- og þróunarstarfs í landbúnaði, auk
þess sem á þinginu eru tekin til umfjöllunar ýmis málefni tengd
atvinnugreininni sem eru ofarlega á baugi hverju sinni. Fræðaþing 2009
er þarna engin undantekning. |
Eins og sjá má í dagskrárdrögum sem birtast á bls. 17 hér í blaðinu verður, auk sameiginlegrar dagskrár fyrir hádegi fimmtudaginn 12. febrúar, boðið upp á tvær samhliða málstofur síðdegis, annars vegar um matvælaframleiðslu í breyttu umhverfi breyttum heimi og hins vegar málstofu um menntun í landbúnaði, tækifæri og þróun. Faglegri dagskrá síðdegis þennan dag lýkur síðan með veggspjaldasýningu, en þar verða einnig kynntar niðurstöður fjölbreyttra rannsókna.
Á hinni sameiginlegu dagskrá í byrjun Fræðaþingsins verður að þessu sinni fjallað um tiltekin atriði í máli málanna þessa stundina; Evrópusambandinu, og áhrif tiltekinna þátta sem fylgja aðild á landbúnaðinn sérstaklega.
Síðari ráðstefnudaginn, föstudaginn 13. febrúar, verða þrjár samhliða málstofur þar sem eftirtaldir efnisflokkar eru á dagskrá; nýsköpun í dreifbýli, smáframleiðsla matvæla, aðbúnaður búfjár og heilbrigði, vatnavistfræði, belgjurtir í jarðrækt og áburður og landgræðsla, undir yfirskriftinni Frá sandi til skógar.
Mikill meirihluti erinda, sem flutt verða á Fræðaþinginu, er gefinn út í sérstöku prentuðu hefti sem þátttakendur á þinginu geta fengið og er innifalið í þátttökugjaldinu. Ennfremur verða velflest erindanna aðgengileg í Greinasafni landbúnaðarins. Greinasafnið, sem er aðgengilegt á slóðinni www.bondi.is, geymir einnig stóran hluta landbúnaðarfagefnis sem gefið hefur verið út á liðnum árum.
Þess skal að lokum getið hér að áhugafólki um fagmál landbúnaðar og náttúruvísindi, þar með töldum bændum, býðst að sækja þingið meðan húsrúm leyfir.
/www.bondi.is
Ítarefni