Fara í efni

Matvælaeftirlit í skipum og bátum

Strandveiðar 2025 hófust nýverið. Í upphafi vertíðar minnir Matvælastofnun á hlutverk sitt við eftirlit skipum og bátum, sem er byggt á lögum um matvæli. Meðferð afla um borð í bátum og skipum er mikilvægur þáttur í að tryggja heilnæmi ásamt geymsluþoli fisks og fiskafurða.

Eftirlitið snýr fyrst og fremst að hollustuháttum um borð og meðferð á afla. Því er farið um borð í báta og skip við löndun og gerð úttekt á ástandi búnaðar, hreinlæti, vinnufatnaði, umbúðum og aðskilnaði matvæla og tækja eða efna sem mengað geta matvæli. Eins er framkvæmt skynmat og hitastig afla við löndun skoðað.

Matvælastofnun hefur frá árinu 2015 sinnt reglubundnu eftirliti með bátum og skipum sem landa ferskum afla í höfnum landsins. Þetta á við öll skip og báta, allt frá stærstu skipum niður í minnstu báta strandveiðiflotans og miðast tíðni reglubundins eftirlits við stærð þeirra:  

0-15 brt. = reglubundið eftirlit þriðja hvert ár  

15-250 brt. = reglubundið eftirlit annað hvert ár  

250-1000 brt. og stærri = reglubundið eftirlit á hverju ári  

Undanfarin 5 ár hefur verið farið í 885 eftirlitsheimsóknir í 688 skip/báta. Á þessu tímabili voru einungis gerðar athugasemdir við tæp 2% skoðunaratriða við eftirlit.

Eftirlit með skipum og bátum er umfangsmikið og getur verið flókið í skipulagningu. Á síðasta ári voru 756 bátar á strandveiðum og stefnir í fleiri í ár. Þá eru hafnir sem landað er við um 60 talsins.

Til grundvallar þessa eftirlits Matvælastofnunar er „Eftirlitshandbók um matvæli úr dýraríkinu“, sem er aðgengileg á vefsíðu Matvælastofnunar www.mast.is. Eftirlitsmenn styðjast við gátlista sem hefur verið unnin út frá skoðunaratriðum í eftirlitshandbókinni og aðlagaður að eftirliti í skipum og bátum sem landa ferskum afla. Gátlistinn nær til allra stærðarflokka svo hafa ber í huga að skoðunaratriði / atriði í gátlista þarf að meta hverju sinni með tilliti til stærðar, umfangs og gerð báta og skipa.


Getum við bætt efni síðunnar?