Fara í efni

Lungnapest í sauðfé

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.  Lungnapest er alvarlegur sjúkdómur í sauðfé, smitandi  lungnabólga með drepi í framblöðum lungnanna og brjósthimnubólgu. Sjúkdómsvaldar eru sk. pasteurellabakteríur, Pasteurella multocida, Mannheimia haemolytica og Biebersteinia trehalosis. Þær geta einnig valdið júgurbólgu í ám, sýkingum í unglömbum og bráðadauða (blóðeitrun) í haustlömbum. Þessar bakteríur eru hluti af bakteríuflóru í efri hluta öndunarvegar jórturdýra  og  alla jafna ekki til vandræða, en við vissar umhverfisaðstæður getur blossað upp sjúkdómur í hjörðum og orðið að skæðum faraldri. Streita er talin mikilvægasta orsökin, svo sem mikill kuldi (t.d. eftir rúning) eða mikill hiti, fóðurbreytingar eða slök fóðrun, þrengsli, raki eða léleg loftræsting.

Sjúkdómseinkenni koma oft fram 10-14 dögum eftir álag. Í upphafi lungnapestarfaraldurs drepast kindur stundum skyndilega en einkenni meðal þeirra sem síðar veikjast er oft sár kæfður hósti  vegna brjósthimnubólgu, andnauð eða mæði, hár hiti (40-41°C), deyfð og lystarleysi. Oft sést rennsli frá nösum og augum, undir lokin má sjá froðu í kjaftinum. Margar kindur fá drep í lungu og eru lengi að ná sér. Langvarandi einkenni er hósti og einstaka gripir hætta að fóðrast og dragast upp. Góður aðbúnaður og fóðrun eru mikilvæg fyrir bata.

Lungnapest er vetrarsjúkdómur á Íslandi sem kemur yfirleitt upp frá nóvembermánuði fram í mars.

Tilraunastöð Háskólans á Keldum annast framleiðslu bóluefnis sem slær á sýkinguna. Svo virðist sem stofnar séu mismunandi eftir landssvæðum og er þess vegna mjög mikilvægt að fá inn til greiningar líffæri úr kindum sem drepast svo hægt sé að sérsníða bóluefnið. Penicillin og önnur sýklalyf vinna vel á þessum bakteríum, en skemmdir í lungum gera batann oft hægan.

Staðan undir Eyjafjöllum og í Mýrdal

Lungnapest var undir Eyjafjöllum snemma  á níunda áratugnum. Bólusett var í nokkur ár og ekki er að sjá að lungnapest hafi verið til vandræða síðan.

Milli jóla og nýárs drápust kindur undir V-Eyjafjöllum og  í Sólheimahverfinu. Síðan hefur nokkuð drepist af fé víðar á svæðinu og  kindur hósta á mörgum bæjum. Við rannsóknir á Keldum hefur komið í ljós að um lungnapest er að ræða.  Þessi lungnapest kemur á þekktum árstíma, upp úr hústöku og fengitíð. Kuldakast og hvasst var á þessum tíma, sömuleiðis mikið öskufjúk.

Nú er bóluefni tilbúið á Keldum, sérsniðið að þeim bakteríum sem greinst hafa í innsendum líffærum.

Bændum hefur verið ráðlagt að bólusetja féð, kostnaður við bólusetningu er ekki mikill. Ef allir standa saman um bólusetningu má koma í veg fyrir að mikið tjón verði á svæðinu.


Ítarefni
Getum við bætt efni síðunnar?