Lungnaormur greinist í innfluttum ketti í einangrun
Við reglubundna sýnatöku á einangrunarstöð fyrir skömmu, greindist lungnaormurinn Aelurostrongylus abstrusus í innfluttum ketti. Þetta er í fyrsta skipti sem þessi ormur greinist hér á landi. Ráðstafanir hafa verið gerðar til að koma í veg fyrir að smitið breiðist út.
Hér er um að ræða sníkjudýr sem gæti náð fótfestu hér á landi ef það kæmist út í náttúruna. Meðhöndlun kattarins hófst í einangrun þegar niðurstöður lágu fyrir og Matvælastofnun hefur fyrirskipað að í framhaldi af útskrift úr einangrun verði kettinum haldið innandyra og hljóti viðeigandi meðhöndlun, þar til sýnt hefur verið fram á með sýnatöku að hann sé laus við smitið.
Kettir með lungnaorma geta verið einkennalausir en ormasýkingin getur líka valdið vægum eða alvarlegum öndunarfæraeinkennum. Helstu einkenni eru nefrennsli, ör eða erfið öndun með eða án hósta. Í alvarlegustu tilfellum getur sýkingin valdið dauða.
Þótt hjarta- og lungnaormar hafi hingað til einungis greinst í innfluttum dýrum og að öllum líkindum hafi tekist að uppræta smitið, þá eru bæði hunda- og kattaeigendur hvattir til að leita til dýralæknis með dýr sín til skoðunar ef þau eru með þrálát öndunarfæraeinkenni eða hósta. Margar ólíkar ástæður geta verið fyrir svipuðum öndunarfæraeinkennum.
Aelurostrongylus abstrusus smitar ekki fólk, né aðrar dýrategundir en kattardýr. Kettir geta ekki smitað hvern annan með beinum hætti. Þegar kettir skilja út lirfur á fyrsta lirfustigi með saur eða hósta þá þurfa lirfur að ganga í gegnum snigla sem millihýsil og þroskast yfir í lirfustig þrjú til að ná smithæfni í ketti. Aðrir millihýslar eins og mýs og smáfuglar sem éta snigla geta borið áfram lirfustig þrjú, en lirfan þroskast ekki í fullorðinn orm fyrr en hún berst í kattardýr sem endahýsil .
Allir kettir og hundar sem dvelja í einangrunarstöð eru skimaðir fyrir sníkjudýrum skömmu eftir innflutning. Reglulega greinast sníkjudýr sem ýmist eru þekkt hérlendis eða hafa ekki fundist áður. Í öllum tilfellum er gripið til viðeigandi ráðstafana til þess að hefta útbreiðslu smits .