Fara í efni

Litarefnið erythrosine í fæðubótarefnum

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

  Matvælastofnun hefur fengið upplýsingar í gegnum evrópska viðvörunarkerfið RASFF (Rapid Alert System for Food and Feed) um fæðubótarefni sem innihalda litarefnið erythrosine (E 127) sem óheimilt er að nota í slíkar vörur.  Fæðubótarefnin sem um ræðir eru Thermo Gain, ætlað til fitubrennslu og vöðvauppbyggingar, og Cell Tech Hardcore, sem er kreatínblanda ætluð íþróttafólki.

Báðar þessar vörur voru um tíma á markaði hér á landi en voru teknar úr sölu síðastliðið sumar eftir aðgerðir af hálfu Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur. Vörurnar ættu þar af leiðandi ekki að vera á almennum markaði í dag, en þær eru hinsvegar fáanlegar í gegnum netsölu.
Samkvæmt aukefnareglum á Evrópska efnahagssvæðinu (EES) er litarefnið erythrosine eingöngu leyfilegt í niðursoðnum eða sykurhúðuðum kokteil- og kirsuberjum. Erythrosine hefur verið tengt við ofvirkni og ljósnæmni og við ofvirkni skjaldkirtils sé þess neytt í miklu magni.  Ólíklegt er þó að neytendur verði fyrir þeim aukaverkunum með hóflegri neyslu á þeim matvælum sem efnið er leyft í hér á landi.

Matvælastofnun hvetur neytendur til að vera á varðbergi gagnvart vörum sem seldar eru í gegnum internetið eða í póstsölu.


Getum við bætt efni síðunnar?