Fara í efni

Líkur á að smitandi barkabólga hafi verið upprætt

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Nú hefur öllum gripum sem reyndust hafa smitast af smitandi barkabólgu (IBR) á Egilsstaðabúinu verið slátrað.

Í kjölfar þess voru tekin blóðsýni úr 178 nautgripum eldri en 6 mánaða á búinu. Ekki fundust mótefni gegn sýkingunni í þeim gripum. Næst verða tekin blóðsýni eftir 5 mánuði á Egilsstöðum og Fljótsbakka en þangað fór ein smituð kýr frá Egilsstöðum. Ef ekki mælast mótefni gegn smitandi barkabólgu í sýnum má gera ráð fyrir að sýkingunni hafi verið útrýmt úr íslenska nautgripastofninum. Þangað til sú niðurstaða liggur fyrir eru þó hömlur á flutningi á dýrum frá þessum búum.

Við reglubundna leit Matvælastofnunar að smitandi sjúkdómum í íslenska kúastofninum fundust mótefni gegn smitandi barkabólgu á kúabúinu á Egilsstöðum á Völlum síðastliðið haust. Við nánari rannsókn og endurteknar sýnatökur úr öllum nautgripum reyndust 34 kýr hafa smitast á Egilsstöðum. Einnig fundust vísbendingar um smit  í einni kú sem fæddist á Egilsstöðum og hafði verið flutt að Fljótsbakka á Héraði. Ekki hafa mælst mótefni gegn sjúkdómnum í öðrum nautgripum á Fljótsbakka.

Í kjölfarið var gerð rannsókn á öllum mjólkurframleiðslubúum í landinu og á nautgripum á nautabúinu í Hrísey og nautum og nautasæði á Nautastöðinni á Hesti.  Ekki fundust neinar vísbendingar um sjúkdóminn annars staðar en í kúm frá Egilsstöðum og Fljótsbakka.

Smitandi barkabólga er landlæg víða og veldur stundum miklu tjóni. Þess vegna er mikilvægt að halda henni í skefjum og uppræta ef mögulegt getur talist. Sum lönd, t.d. Norðurlöndin, hafa upprætt smitið þegar það hefur fundist og í öðrum löndum, t.d. Þýskalandi, er unnið að útrýmingu. Jafnframt er leitað er reglulega að mótefnum gegn veikinni í nautum á nautastöðvum í ESB ríkjum .

Matvælastofnun vonast til að hægt verði að staðfesta í sýnatöku í sumar að sjúkdómnum hafi verið útrýmt.

Ítarefni


Getum við bætt efni síðunnar?