Fara í efni

Leyfi til eggjaframleiðslu

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Þeir sem dreifa eggjum til neyslu þurfa að vera með starfsleyfi frá Matvælastofnun fyrir sinni frumframleiðslu og þeir sem reka eggjapökkunarstöð þurfa starfsleyfi frá stofnuninni sem matvælafyrirtæki, ásamt samþykkisnúmeri. Stjórnendur eggjapökkunastöðva skulu sækja um starfsleyfi í gegnum Þjónustugátt MAST á heimasíðu Matvælastofnunar.  Starfsleyfi og samþykkisnúmer er gefið út að lokinni úttekt á eggjapökkunarstöðinni. Tilgangur útektarinnar er að sannprófa að viðeigandi kröfur reglugerða nr. 103/2010, 104/2010 og 251/1995 séu uppfylltar. Hægt er að finna upplýsingar um kröfur til eggjaframleiðanda og þeirra sem pakka eggjum til dreifingar á neytendamarkaði í ítarefninu hér að neðan.

Heimilt er skv. matvælalögum að veita aðilum með takmarkaða framleiðslu undanþágu frá starfsleyfi. Í reglugerð nr. 580/2012 með síðari breytingum (nr. 41/2013) eru settar fram reglur um afhendingu eggja í litlu magni. Skv. þeim má aðili afhenda egg frá allt að 100 alifuglum, eða allt að 1.600 kg af eggjum á ári, og dreifa þeim heilum og óunnum beint til neytenda. Allir þeir sem dreifa matvælum bera ábyrgð á að þau matvæli sem þeir dreifa séu örugg og ekki heilsuspillandi eða óhæf til neyslu. Einnig ber þeim að tryggja rekjanleika.

Ítarefni


Getum við bætt efni síðunnar?