Fara í efni

Leifar varnarefna undir mörkum í yfir 97% matvæla

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Mælingar á illgresiseyðum, skordýraeitri og öðrum varnarefnum í matvælum í Evrópu sýna að yfir 97% sýna voru með varnarefnaleifar undir leyfilegum mörkum. Engar leifar varnarefna greindust í 54,6 % sýna af matvælum en tekin voru nærri 81.000 sýni í 27 ríkjum Evrópusambandsins, Íslandi og Noregi. Þetta kemur fram í skýrslu Matvælaöryggisstofnunar Evrópu (EFSA) um niðurstöður mælinga á varnarefnum í matvælum árið 2013.

Þetta eru niðurstöður samræmdrar eftirlitsáætlunar Evrópusambandsins til margra ára, sem Ísland tekur þátt í, ásamt niðurstöðum úr reglubundnu eftirliti ríkjanna 29. Á Íslandi voru tekin 242 sýni af ávöxtum og grænmeti árið 2013, bæði af innlendri ræktun og innfluttum ávöxtum og grænmeti. Þessi sýni voru hluti af nærri 81.000 sýnum frá öllum 29 löndunum sem skýrslan byggir á.

Megnið af sýnunum voru af matvælum upprunnum innan Evrópska efnahagssvæðisins (EES) eða 68,2% en 27,7% voru innflutt frá ríkjum utan EES. Hin síðarnefndu reyndust oftar innihalda efni yfir hámarksgildum (5,7%) en matvæli frá löndum innan EES (1,4%). Niðurstöður eru þó betri en árið 2012 þegar 7,5% sýna af matvælum frá löndum utan EES reyndust innihalda leifar yfir hámarksgildum.

Samræmda eftirlitsáætlunin byggir á því að sömu 10 matvælin eru skoðuð sérstaklega á 3 ára fresti. Árið  2010 og aftur 2013 voru það epli, höfuðkál, blaðlaukur, salat, ferskjur, rúgur eða hafrar, jarðarber, tómatar, mjólk, svínakjöt og vín. Samanburður milli þessara ára sýnir að í öllum þessum matvælaflokkum hefur fækkað þeim sýnum sem innihalda leifar yfir hámarksgildum. Niðurstöðurnar staðfesta að samræmdar og skýrar reglur um notkun plöntuvarnarefna og hámarksgildi leifa í Evrópu auka öryggi neytenda.

Niðurstöður úr greiningum á íslensku sýnunum eru mjög samhljóma þeim evrópsku, en tæplega 98% íslensku sýnanna reyndust ekki innihalda leifar yfir hámarksgildum. 134 sýni (55,4%) innihéldu engar leifar þeirra efna sem skimað er fyrir hérlendis, en það er örlítið hærra hlutfall en í samantekt EFSA enda var ekki hægt að skima fyrir eins mörgum efnum hérlendis árið 2013, eins og gert er í Evrópu. Fjöldi efna sem skimað er fyrir hérlendis hefur hækkað með samstarfsverkefni íslenskra og þýskra stjórnvalda um aukið öryggi matvæla, en nýr tækjabúnaður var keyptur og starfsfólk Matís ohf, Matvælastofnunar og heilbrigðiseftirlits sveitarfélaganna fékk umfangsmikla þjálfun á tækjabúnað og um löggjöf, eftirlit, sýnatökur og meðferð sýna frá sérfræðingum þýskra systurstofnana. 

Ítarefni


Getum við bætt efni síðunnar?