Fara í efni

Leiðbeiningar vegna smölunar og haustleita

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Smalamennskur og fjárleitir eru vandasamt verk þar sem gæta þarf öryggis en alltaf ætti að hafa velferð fjárins og hrossanna að leiðarljósi.

Lengstu fjárleitir sem mér er kunnugt um eru 6-7 daga smalamennskur á afréttum Árnesinga. Þeir Flóamenn sem fara í lengstar fjallferðir eru 11 daga í ferðinn á hestbaki. Kind úr Flóanum sem finnst inni í Tjarnarveri getur átt fyrir höndum 100 km göngu á sex dögum þangað til hún kemur í Reykjaréttir. Sem betur fer eru ekki margar kindur sem koma fram í smalamennskum svona langt frá byggð, en það er mikil ábyrgð sem hvílir á þeim sem ætla að koma þessum kindum til byggða. Það hlýtur að vera umhugsunarefni hvort ekki er farsælast að ná þeim í aðhald og gera ferð til þess að flytja þær heim á vagni. Fyrir 50 árum var fé rekið á fjall en í fjóra áratugi hefur þótt sjálfsagt að aka því.



  
Mikilvægt er að standa þannig að smalamennskum að féð hlaupi sig ekki uppgefið. Þessu ber einkum að vara við þar sem notuð er vélknúin hjól sem aldrei þreytast og eru mun hraðskreiðari en bæði hestar og kindur.

Þegar fé er náttað í gerði er mikilvægt að það hafi aðgang að vatni. Í rekstri verður að fara hægt og hafa farartæki við hendina til þess að taka þreyttar eða haltar kindur tímanlega á vagn. Sérstaklega reynir mikið á féð ef heitt er í veðri, þá getur verið mikilvægt að æja vel og lengi þegar dagurinn er heitastur.

Því miður hafa slys orðið þegar verið er að reka fé yfir vatnsföll sem jafnvel eru ekki nema lækir alla jafna. Þess vegna er mikilvægt að velja rekstrarleiðir þar sem hægt er að nota brýr og forðast vöð þar sem þrengir að fénu.

Á afrétti er ekki mikil hætta á sjúkdómasmiti, en sú hætta eykst eftir því sem féð þéttist í rekstri. Jafnframt verður féð næmara fyrir smiti þegar það þreytist. Þess vegna er margra daga rekstur fjár frá mörgum bæjum saman, vísasta leiðin til að breiða út sjúkdóma eins og riðuveiki, kregðu, tannlos og kýlapest. Það er umhugsunarefni hvort ekki er tímabært að flytja réttir inn að afréttargirðingum og draga fé í sundur þar eins og nú er gert á stöku stað, t.d. rétta Landmenn í Áfangagili. Í einhverjum sveitum mundi það spara einn til tvo daga í rekstri. Réttaböllin mætti svo halda í byggð í þeim glæsilegu mannvirkjum sem vel hlaðnar réttir eru.

Matvælastofnun fer fram á að hausar séu teknir af fullorðnum kindum sem drepast á fjalli og haft sé samráð við héraðsdýralækni um sýnatöku úr þeim ásamt nákvæmum upplýsingum um urðunarstað t.d. með GPS tæki, hafi ekki verið hægt að koma hræinu til byggða.


Getum við bætt efni síðunnar?