Fara í efni

Landsbundin eftirlitsáætlun - fyrsta útgáfa

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Landsbundin áætlun til margra ára fyrir eftirlit með matvælum og fóðri hefur verið gefin út. Hún gildir fyrir árin 2017 – 2020, en verður endurskoðuð reglulega.

Í áætluninni er eftirlitskerfi fyrir matvæla- og fóðureftirlit á Íslandi lýst á heildstæðan hátt, og þar með tvinnast saman ýmsir þættir eftirlits sem áður hafa verið gefnir út s.s. áhættu- og frammistöðuflokkunarkerfi, skoðunarhandbækur, gæðakerfi, viðbragðsáætlanir, landsáætlanir um varnir og viðbrögð vegna salmonellu og kampýlóbakter o.s.frv.

Í áætluninni eru sett fram markmið í opinberu eftirliti, hvernig það er byggt á skjalfestum verklagsreglum, hvernig það er áhættumiðað og hvernig tekið er mið af niðurstöðum úr eftirliti við ákvörðun á tíðni eftirlits. Lýst er aðferðum til sannprófunar á  eftirlitskerfinu, en áætlunin er liður í að tryggja skilvirkt eftirlit með matvælum og fóðri.

Um er að ræða fyrstu útgáfu landsbundinnar eftirlitsáætlunar til margra ára (LEMA) og er með henni verið að uppfylla kröfur í Reglugerð nr. 106/2010, svokallaðri eftirlitsreglugerð, sem er innleiðing á EB reglugerð nr. 882/2004 um opinbert eftirlit til að staðfesta að lög um fóður og matvæli og reglur um heilbrigði og velferð dýra séu virt.

Ársskýrsla alls matvælaeftirlits í landinu þ.e. Matvælastofnunar og heilbrigðiseftirlits sveitarfélaga,  svo og fóðureftirlits, verður birt á grundvelli eftirlitsáætlunarinnar, í fyrsta sinn fyrir árið 2018.

Ítarefni


Getum við bætt efni síðunnar?