Kynning á niðurstöðum heilbrigðisskoðana hrossa
Landssamband hestamannafélaga hélt þann 9. nóvember sl. kynningarfund um niðurstöður heilbrigðsskoðana samkvæmt fyrirkomulaginu „Klár í keppni“ á sýningar- og keppnishrossum á árinu 2012. Þar kynnti dýralæknir hrossasjúkdóma hjá Matvælastofnun þá niðurstöðu að allar líkur eru á að stangir með tunguboga séu aðalskaðvaldur alvarlegra áverka á tannlausa bilinu í neðri góm hrossa.
Yfirdýralæknir sat þennan fund og telur að kynning dýralæknis hrossasjúkdóma hafi í alla staði verið fagleg og öfgalaus og að niðurstöður um háa tíðni áverka í munni hesta sé vissulega áhyggjuefni.
Nú hefur Velferðarnefnd Landssambands hestamannafélaga, sem meðal annars var skipuð til að fjalla um heilbrigði keppnishrossa, lagt til að stangir með tunguboga verði bannaðar í tvö ár og þá metið aftur hvort áverkar á tannlausabilinu hafi minnkað. Matvælastofnun hvetur alla sem koma að hestamennskunni til að leggja sitt að mörkum til að draga úr þessum vanda.