Fara í efni

Kröfu um ógildingu afturköllunar rekstrarleyfis til sjókvíaeldis hafnað

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hafnaði í úrskurði sínum kröfu Arctic Sea Farm hf. um ógildingu ákvörðunar Matvælastofnunar frá 5. maí 2021. Með ákvörðuninni var leyfi Arctic Sea Farm hf. til sjókvíaeldis á laxi og regnbogasilungi í Skötufirði afturkallað.

Ástæða afturköllunarinnar var sú að samkvæmt 15. gr. laga nr. 71/2008 um fiskeldi er Matvælastofnun skylt að afturkalla rekstrarleyfi ef starfsemi hefur ekki hafist innan þriggja ára frá útgáfu leyfis.  Jafnframt skuli tilkynna rekstraraðila slíka ákvörðun áður en hún sé tekin og gefa bæði kost á andmælum og svigrúmi til að gera úrbætur og koma starfsemi af stað.

Í úrskurðinum segir:

Svo sem rakið er í málavöxtum hefur ekki verið starfrækt fiskeldisstöð á grundvelli rekstrarleyfis Matvælastofnunar sem kærandi fékk framselt til sín 22. febrúar 2016. Vegna áforma stofnunarinnar um afturköllun rekstrarleyfisins veitti hún kæranda skriflegar viðvaranir og hæfilegan frest til úrbóta í samræmi við 2. mgr. 15. gr. laga nr. 71/2008, auk þess að veita honum eins árs frest til að hefja starfsemi ellegar yrði rekstrarleyfið fellt úr gildi. Að loknum gefnum fresti felldi stofnunin rekstrarleyfið úr gildi, enda hafði kærandi þá ekki hafið starfsemi. Verður ekki annað séð en að stofnunin hafi við meðferð málsins fylgt skýrum fyrirmælum laga nr. 71/2008 um afturköllun rekstrarleyfisins að liðnum hlutlægum og lögbundnum tímafrestum.

Ítarefni


Getum við bætt efni síðunnar?