Fara í efni

Krafa um skaðabætur staðfest

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Þann 18. maí 2017 var kveðinn upp dómur í Hæstarétti í máli Kræsingar ehf. gegn Matvælstofnun þar sem viðurkennd er skaðabótaskylda Matvælastofnunar vegna tilkynningar sem birt var á heimasíðu stofnunarinnar þann 27. febrúar 2013 og varðaði framleiðslu fyrirtækisins.

Í fréttinni var þess getið að rannsókn hefði sýnt fram á að ekkert kjöt hefði fundist í nautaböku frá fyrirtækinu Gæðakokkum í Borgarnesi, en nautabakan átti skv. innihaldslýsingu að innihalda 30 % nautahakk í fyllingu og að lambahakksbollur sama framleiðenda sem sagðar voru hafa innihaldið lamba- og nautakjöt hefðu eingöngu innihaldið lambakjöt.

 Í dómi Hæstaréttar segir að hvað sem líði heimildum Matvælastofnunar til að standa að rannsóknum á umræddum vörum hafi það verið á verksviði Heilbrigðiseftirlits Vesturlands að hafa eftirlit með framleiðslu og dreifingu á bökunum.  Það hafi verið sami aðilinn, þ.e. Heilbrigðiseftirlit Vesturlands, sem hafi haft heimild til að birta niðurstöður úr slíku eftirliti. Matvælastofnun hefði því brostið heimild til að standa að birtingu fréttarinnar og hún hafi því verið ólögmæt.

Þá segir í forsendum dómsins að Matvælastofnun hafi borið að tryggja að rannsókn á vörum Gæðakokka yrði hagað í samræmi við meginreglur stjórnsýsluréttarins þar sem auk annars varð að gæta að því að rannsókn málsins væri fullnægjandi og þar með útilokað að um einstaka mistök eða óhappatilvik hafi verið að ræða.

Jafnframt bar Matvælastofnun að gæta að meginreglu um meðalhóf við meðferð málsins en stofnuninni mátti vera ljóst hvaða afleiðingar það myndi hafa á starfsemi Gæðakokka að birta umrædda tilkynningu.

Hefði rannsókn á innihaldi einnar pakkningar af nautbökum ekki getað talist fullnægjandi grundvöllur þeirrar opinberu upplýsingarmiðlunar um framleiðslu Gæðakokka sem átti sér stað í framhaldinu og hefði a.m.k. mátt gera þá kröfu að slík rannsókn yrði endurtekin með frekari sýnatöku áður en almenningi væri kynnt um að varan væri haldin þeim ágalla sem fullyrt var.

Dómurinn vekur því upp spurningar um heimildir opinberra eftirlitsaðila með matvælum til að birta að eigin frumkvæði upplýsingar sem fengnar eru úr eftirlitsverkefnum. Í málinu lá fyrir reglugerðarákvæði þar sem Matvælastofnun var falið að annast rannsóknir vegna opinbers eftirlits varðandi samsetningu matvæla með tilliti til merkingar, auglýsingar og kynningar þeirra. Ótækt er að Matvælastofnun sé ekki heimilt að birta niðurstöður úr eigin eftirliti.  Þá telur stofnunin sýnt að skoða þurfi kröfur sem gerðar eru í  löggjöf um sýnatökur og búa þannig um hlutina að hægt sé að byggja á þeim sýnum sem tekin eru við opinbert eftirlit og upplýsa um greiningar á þeim.

Matvælastofnun mun í framhaldi dómsins fara yfir niðurstöður hans með lögmanni stofnunarinnar um framhald málsins. Jafnframt mun stofnunin taka málið upp við atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið varðandi hvort dómurinn kalli á einhverjar breytingar á lögum og/eða reglugerðum til að tryggja betur heimildir opinberra eftirlitsaðila til að koma upplýsingum úr eftirlit á framfæri við neytendur.


Getum við bætt efni síðunnar?