Kræklingur úr Hvalfirði og Eyjafirði varasamur
Frétt -
11.06.2012
Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.
Sýni af sjó voru tekin í Hvalfirði í lok síðustu viku til greiningar á eitruðum þörungum. Í ljós kom að Dynophysis þörungar sem geta valdið DSP eitrun voru yfir viðmiðunarmörkum. Matvælastofnun varar því við neyslu á krækling sem safnað er í Hvalfirði.
Einnig er varað við neyslu á krækling úr Eyjafirði. Alexandrium þörungar sem valda PSP eitrun voru yfir viðmiðunarmörkum í sjósýni sem tekið var 3. júní s.l. við Hrísey. PSP eitur í krækling var einnig yfir viðmiðunarmörkum og því er varasamt að neyta kræklings frá svæðinu.
Óhætt er hins vegar að neyta kræklings úr Breiðafirði þar sem greiningar á sjósýnum og krækling sem tekin voru við Kiðey í Breiðafirði sýna að engin hætta er á þörungaeitri í krækling þaðan.