Fara í efni

Kartöfluhnúðormur í Þykkvabænum

Kartöfluhnúðormur (Globodera rostochiensis og G. pallida) hefur fundist í kartöflugörðum í Þykkvabæ. Málið er í skoðun hjá Matvælastofnun og atvinnuvegaráðuneytinu og er unnið að aðgerðaráætlun. 

Kartöfluhnúðormur fannst fyrst hér á landi á 6. áratug síðustu aldar og er skilgreindur skaðvaldur í reglugerð 455/2006 um kartöfluútsæði. Ekki má rækta útsæði þar sem kartöfluhnúðormur hefur greinst.

Kartöfluhnúðormur leggst á rætur plöntunnar. Hnúðarnir liggja í dvala í jarðveginum þar til rætur kartöflunnar senda frá sér efni sem örvar hnúðana sem klekjast og leita uppi hýsilplöntu. Ungviðið borar sig inn í ræturnar, nærist þar og gengur í gegnum nokkur þroskastig þar til það verður að fullorðnum dýrum. Kvendýrið er hnöttótt, þrýstist út í gegnum ysta lag rótanna og situr þar fast. Karldýrið frjóvgar hnúðinn og hverfur úr plöntunni. Kvendýrið deyr og eggin þroskast í hnúðnum. Loks losnar hnúðurinn frá hýsilplöntunni og liggur svo í dvala þar til hýsilplanta vekur hann. Hnúðormarnir lifa eingöngu í nokkrar vikur í jarðvegi en hnúðarnir eru harðgerir og geta legið í dvala í allt að 20 ár.

Smitleiðir eru með sýktu útsæði og jarðvegsflutningnum t.d. óhreinum vélum. Náttúruleg dreifing kartöfluhnúðorma er mjög lítil og í mesta lagi 1 metra á ári. Nokkuð mikið smit þarf að vera til staðar til að sýkingin hafi áhrif á vöxt og viðgang plantnanna. Sýking getur því verið ómerkjanleg um nokkra hríð. Helsta ráðið er að hvíla garða og takmarka samgang á milli ræktunarsvæða og þrífa vel allar vélar sem koma að ræktuninni, sem og niðursetning yrkja með mótstöðuafli gegn kartöfluhnúðormi.


Getum við bætt efni síðunnar?