Fara í efni

„Íslenskt lambakjöt“ fyrsta verndaða afurðaheitið hérlendis

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Matvælastofnun hefur samþykkt „Íslenskt lambakjöt“ sem verndað afurðaheiti. Markaðsráð kindakjöts sótti um vernd fyrir afurðaheitið.

Auglýsing um skráninguna var birt á vef Stjórnartíðinda í dag. „Íslenskt lambakjöt“ verður þar með fyrsta verndaða afurðaheitið sem skráð er hérlendis á grundvelli laga nr. 130/2014 um vernd afurðarheita sem vísa til uppruna, landsvæðis eða hefðbundinnar sérstöðu. 

Einungis ein umsókn um vernd afurðaheita hefur borist Matvælastofnun frá því að lögin tóku gildi. 

Skráð afurðarheiti sem vísa til uppruna, landsvæðis eða hefðbundinnar sérstöðu njóta skv. lögunum verndar gegn: 

  • beinni eða óbeinni notkun í viðskiptum með afurð sem fellur ekki undir skráninguna, að svo miklu leyti sem sú afurð er sambærileg við þá afurð sem skráð er undir sama heiti eða ef notkun heitisins færir sér í nyt orðspor hins verndaða heitis, þ.m.t. þar sem afurð er notuð sem hráefni,
  • hvers konar misnotkun, eftirlíkingu eða villandi hugrenningatengslum, jafnvel þótt raunverulegur uppruni afurðarinnar sé gefinn til kynna, eða þar sem hið verndaða heiti hennar er þýtt eða því fylgja orð á borð við „að hætti“, „í stíl“, „gerð“, „aðferð“, „eins og framleitt í“, „eftirlíking“ eða álíka, og einnig þegar þessar afurðir eru notaðar sem hráefni,
  • hvers konar öðrum röngum eða villandi merkingum sem sýna tilurð, uppruna, eðli eða helstu eiginleika afurðar, á innri eða ytri umbúðum, í kynningarefni eða skjölum sem fylgja viðkomandi afurð og notkun umbúða sem geta gefið villandi mynd af uppruna hennar,
  • hvers konar öðru athæfi sem villt getur um fyrir almenningi hvað raunverulegan uppruna afurðar varðar.

Samkvæmt lögunum skal Matvælastofnun veita andmælarétt við fyrirhugaða ákvörðun áður en endanleg ákvörðun er tekin. Ein andmæli bárust en þeim var hafnað. Hægt er að kæra ákvörðun Matvælastofnunar til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis.

Ítarefni


Getum við bætt efni síðunnar?