Fara í efni

Ísland og EFSA semja um rannsóknir á sýklalyfjaónæmi

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Matvælaöryggisstofnun Evrópu (EFSA) og íslensk stjórnvöld hafa ákveðið að hefja samstarf í baráttunni gegn sýklalyfjaónæmi. Verkefnið felur í sér rannsóknir á sýklalyfjaónæmi í bakteríum (E. coli) á Íslandi með heilraðgreiningu á erfðaefni þeirra.

Vonast er til að niðurstöðurnar varpi ljósi á uppruna baktería með getu til að mynda sýklalyfjaónæmi (ESBL/AmpC myndandi E. coli) og greina þátt matvæla, dýra, manna og umhverfis í útbreiðslu sýklalyfjaónæmis. 

„Nýleg viðhorfskönnun EFSA sýnir að helstu áhyggjur evrópskra neytenda eru sýklalyf í matvælum. Það gleður mig að EFSA og Matvælastofnun hafi ákveðið að sameina krafta sína í baráttunni gegn sýklalyfjaónæmi, sem er ein helsta ógn sem við stöndum frammi fyrir í dag. Styrkur EFSA, sem nemur 8,5 milljónum króna, mun styðja við vísindarannsóknir og vera hlekkur í sameiginlegu átaki gegn sýklalyfjaónæmi á heimsvísu.“ – Dr. Bernhard Url, forstjóri EFSA

Undirritun samnings vegna verkefnisins fór fram í dag í hátíðarsal Háskóla Íslands í tengslum við komu forstjóra EFSA, Bernhard Url, til fundar ráðgjafahóps EFSA á Íslandi (Advisory Forum). Matvælastofnun, í samvinnu við Keldur, Matís og sýklafræðideild Landspítalans, hefur unnið að undirbúningi að samstarfsverkefninu með EFSA og DTU Fødevareinstituttet í Danmörku. Verkefnið er unnið undir formerkjum “One Health”, sem er alþjóðleg stefna ætluð auknu þverfaglegu samstarfi og samskiptum á öllum sviðum heilbrigðisþjónustu fyrir menn, dýr og fyrir umhverfið. 


Jón Gíslason, forstjóri Matvælastofnunar og Bernhard Url, forstjóri EFSA undirrita samninginn

Verkefnið er partur af röð samstarfsverkefna EFSA á sviði matvælaöryggis og er megin markmið þeirra að auka þekkingu í hverju landi ásamt því að auka samvinnu milli landa innan Evrópu. Verkefnið er einnig liður í áætlun stjórnvalda til að auka fjármagn til rannsókna og sóknar gegn sýklalyfjaónæmi og verður styrkt að hluta af EFSA.


Fulltrúar Matís, Keldna, Matvælastofnunar og EFSA við undirritun samnings

Sýklalyfjaónæmi er ein stærsta ógn við lýðheilsu í heiminum í dag og hafa alþjóðastofnanir hvatt aðildarþjóðir sínar til að efla rannsóknir til að stemma stigu við þessari ógn. Niðurstöðurnar munu nýtast til að útbúa viðbragðsáætlanir til að viðhalda lágu hlutfalli sýklalyfjaónæmis eða að hægja á þróun/aukningu ónæmis eins og hægt er.

Ítarefni


Getum við bætt efni síðunnar?