Fara í efni

Innflutningur landbúnaðarafurða frá EES (kjöt, mjólkurvörur og egg)

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.


Við mótun framtíðarsýnar fyrir Landbúnaðarstofnun var horft til þess að stjórnvöld vinna nú að tillögum um breytingar á EES-samningnum, sem leiða til þess að matvælalöggjöf Evrópusambandsins getur tekið gildi hér á landi áður en langt um líður. Í þessu felst samræming á kröfum um hollustuhætti við framleiðslu og dreifingu matvæla og ein afleiðing af því er að skilyrði vegna innflutnings á kjöti, mjólkurvörum og öðrum landbúnaðarafurðum frá Evrópska efnahagssvæðinu (EES) taka breytingum. Með þessu er t.d. átt við að leyfisveitingar vegna innflutnings, þegar horft er til heilbrigðissjónarmiða, kunni að verða einfaldari í framkvæmd en nú er. Íslensk stjórnvöld munu þó eftir sem áður gera kröfu um heilnæmi afurða og er þá sérstaklega horft til þess að innfluttar vörur séu ekki mengaðar af salmonellu.


Niðurstaðan af framangreindum breytingum getur orðið sú að aukið frelsi komist á í viðskiptum með matvæli (landbúnaðarafurðir) í samræmi við ákvæði EES-samningsins. Hins vegar ber að hafa í huga að þetta á eingöngu við um þær kröfur sem gerðar eru til hollustuhátta við framleiðslu og dreifingu matvæla. EES-samningurinn nær ekki til tolla og sértækra ráðstafana, sem stjórnvöld hér á landi kunna að ákvarða til stuðnings íslenskum landbúnaði.


Ljóst er að Landbúnaðarstofnun mun fá aukin verkefni þegar breytingar á EES-samningnum taka gildi og framtíðarsýn hennar tekur mið af þessu:

 

Framtíðarsýn


  • Velferð og heilbrigði dýra í ómenguðu umhverfi er ein verðmætasta auðlind hverrar þjóðar. Íslenskur landbúnaður er í fremstu röð hvað varðar heilbrigði dýra og plantna, ásamt heilnæmi afurða. Landbúnaðarstofnun mun standa vörð um þessa auðlind og auka verðmæti hennar.
  • Með auknu frelsi í viðskiptum verða breytingar á íslenskum neytendamarkaði. Land­bún­aðar­stofnun mun stuðla að gæðum landbúnaðarafurða, vinna að matvæla­öryggi og öflugri neytendavernd í breyttu viðskiptaumhverfi.

 


Getum við bætt efni síðunnar?