Fara í efni

Hydroxycut vörur innkallaðar í Bandaríkjunum

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Lyfja- og matvælastofnun Bandaríkjanna, FDA, hefur á heimasíðu sinni gefið út viðvörun við notkun Hydroxycut fæðubótarefna þar sem stofnuninni hafi borist 23 tilkynningar um alvarlegar aukaverkanir af ýmsu tagi sem tengjast notkun Hydroxycut og þar af eitt dauðsfall. Stofnunin hefur sent frá sér lista yfir 14 mismunandi Hydroxycut vörur sem voru á markaði og hafa verið innkallaðar þar í landi. Einnig kemur fram að ekki er ljóst hvaða innihaldsefni veldur einkennunum sem fram hafa komið og þó svo aukaverkanir hafi ekki verið tengdar öllum þeim vörum sem upp eru taldar hefur framleiðandinn Iovate Health Sciences fallist á að innkalla allar vörutegundirnar á listanum.


Hér á landi er á markaði Hydroxycut vara sem ekki er á markaði í Bandaríkjunum og er ekki talin upp á lista FDA, en er heldur ekki ein af þeim sem tekið er fram að séu undanskildar innköllun. Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur hefur óskað eftir því við innflytjanda vörunnar að hann útvegi staðfestingu frá framleiðanda á því að ekki stafi hætta af þeirri tegund Hydroxycut sem hingað er seld og að hún sé undanskilin innköllun.


Þann 2. maí 2009 er á visir.is og mbl.is haft eftir framkvæmdastjóra Fitnesssport á Íslandi að fitubrennsluefnið Hydroxycut sem selt er hér á landi hafi fengið samþykki Matvælastofnunar. Að þessu tilefni vill stofnunin benda á að samkvæmt reglugerð nr. 624/2004 um fæðubótarefni eru efnin tilkynningaskyld til Matvælastofnunar. Stofnunin leggur hins vegar ekki mat á einstakar vörur eða veitir formlegt samþykki fyrir þeim, en athugasemdir eru gerðar ef augljóst er að efnainnihald eða merkingar eru ekki í samræmi við gildandi reglur. Hlutverk Matvælastofnunar er því að veita upplýsingar um löggjöfina og að taka á móti tilkynningum og skrá þær, en það er á ábyrgð framleiðanda eða innflytjanda að setja ekki á markað vörur sem geta valdið heilsutjóni eða sem uppfylla ekki öll skilyrði íslenskrar matvælalöggjafar.

Á vef Lyfjastofnunar kemur fram að stofnunin hafi sannreynt að ekkert af þeim efnum sem tilgreind eru á umbúðum þeirrar Hydroxycut vöru sem seld er hér á landi flokkast sem lyf samkvæmt íslenskri lyfjalöggjöf.

Ítarefni




Getum við bætt efni síðunnar?