Fara í efni

Hvaða hestahald er nú tilkynningar- og úttektarskylt?

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Reglugerð um velferð hrossa kveður á um úttektarskyldu Matvælastofnunar á margskonar hestahaldi í atvinnuskyni. Ábyrgðarmönnum slíkrar starfsemi ber að tilkynna starfsemina til Matvælastofnunar eigi síðar en 30 dögum áður en hún hefst og einnig ber að tilkynna starfsemi sem hófst fyrir gildistöku reglugerðarinnar. Tilgangurinn er að treysta smitvarnir og viðbrögð við smitsjúkdómum og að auðvelda eftirlit með velferð hrossa. 

Eftirfarandi ákvæði gilda um tilkynningar- og úttektarskylda starfsemi:

 1. Landsmót hestamanna
  - Öll hross skulu undirgangast heilbrigðisskoðun skv. fyrirkomulagi sem samþykkt hefur verið af Matvælastofnun
  - Sértæk viðbragðsáætlun, samþykkt af Matvælastofnun, ef upp kemur grunur um smitsjúkdóm
 2. Íslandsmót í hestaíþróttum
  - Öll hross skulu undirgangast heilbrigðisskoðun skv. fyrirkomulagi sem samþykkt hefur verið af Matvælastofnun
  - Sértæk viðbragðsáætlun, samþykkt af Matvælastofnun, ef upp kemur grunur um smitsjúkdóm
 3. Tæknivædd þjálfunarstöð
  - Þeir sem reka tæknivæddar þjálfunarstöðvar fyrir hross og/eða starfsmenn þeirra skulu auk grunnþekkingar á eðli og þörfum hrossa, geta sýnt fram á þekkingu á þjálfunarlífeðlisfræði hrossa eða sambærilega menntun
  - Stöðugt eftirlit skal vera með hrossum meðan á þjálfun þeirra stendur í vélknúnum tækjum eða í öðrum búnaði þar sem hross geta enga björg sér veitt, fari eitthvað úrskeiðis, s.s. í sundlaugum
  - Þar sem hross eru þjálfuð á vatnsbrettum eða í sundlaugum skal gæta sérstakra smitvarna. Hindra skal að sjúkdómsvaldandi bakteríur vaxi í vatni sem notað er við slíka þjálfun með grófhreinsun vatnsins og klórun eða annarri efnameðhöndlun og halda yfir það dagbók
  - Í dagbókina skal einnig skrá hvaða hross eru þjálfuð með þessum hætti og heilbrigði þeirra. Dagbókin skal aðgengileg eftirlitsaðilum samkvæmt reglugerð þessari í allt að tvö ár
 4. Endurhæfingarstöð fyrir hross
  - Endurhæfing hrossa vegna álagssjúkdóma eða annarra veikinda á endurhæfingarstöð skal eingöngu eiga sér stað að lokinni sjúkdómsgreiningu og samkvæmt tilvísun frá dýralækni
 5. Tamningastöð
  - Tilkynningarskylda
 6. Hestahald þar sem framkvæmd er blóðtaka úr hrossum til framleiðslu afurða
  - Tilkynningarskylda
 7. Hestaleiga
  - Umráðamanni hestaleigu ber að skrá tíðni og tímalengd notkunar á hverju hrossi
  - Dagbókin skal aðgengileg eftirlitsaðilum samkvæmt reglugerð þessari hvenær sem þurfa þykir
 8. Reiðskóli
  - Umráðamanni reiðskóla ber að skrá tíðni og tímalengd notkunar á hverju hrossi.
  - Dagbókin skal aðgengileg eftirlitsaðilum samkvæmt reglugerð þessari hvenær sem þurfa þykir

Frestur til að skila inn tilkynningum um framangreinda starfsemi til Matvælastofnunar er til 4. apríl 2016. Opnuð hefur verið rafræn leið í gegnum þjónustugátt Matvælastofnunar, umsokn.mast.is, merkt 2.10 Tilkynningaskyld starfsemi með hesta.

Ítarefni


Getum við bætt efni síðunnar?