Fara í efni

Hundar sem bíta

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.


  
Í Grágás kveður á um skyldur hundaeigenda og  refsingar og skaðabótaskyldu vegna hunda sem bíta. Það hefur því um aldaraðir verið talið nauðsynlegt að hafa reglur um hundahald.
 
Að undanförnu hefur verið töluverð fjölmiðlaumræða um hunda sem bíta menn. Brýnt virðist að sveitarfélög landsins samstilli viðbrögð sín við slíkum uppákomum, þá í samráði við dýralækna- og lögregluyfirvöld þannig að hægt sé að taka á málum fljótt og af festu. Skerpa þarf einnig og samræma almennar kröfur um hundahald bæði í þéttbýli og sveitum, langflestir hundaeigendur annast sína hunda af ábyrgð en alltaf eru einhverjir innan um sem koma óorði á dýrin.

Sömuleiðis verða að vera samræmd viðbrögð þegar hundar bíta önnur dýr. Lengi hafa þær óskráðu reglur gilt í sveitum landsins að hundar sem staðnir eru að verki eru réttdræpir á staðnum, ef þeir nást ekki þá láta eigendur lóga þeim. Hundaeigandinn hefur sömuleiðis verið talinn bótaskyldur vegna tjónsins, flestir eru tryggðir fyrir svona búsifjum.

En tímarnir breytast, nú eru þéttbýlisbúar mikið á ferðinni um landið með hundana sína, oft dýra hunda sem litið er á sem fjölskyldumeðlimi. Oft átta eigendurnir sig ekki á hve mikinn skaða hundarnir geta gert á skömmum tíma, þeir reka fé fyrir björg eða á girðingar, flæma lömb undan mæðrum sínum eða bíta féð. Stundum drepa þeir kindurnar eða særa til ólífis. Hundar bíta gjarna í hækla og læri, oft uppgötvast þetta ekki fyrr en í sláturhúsi þegar graftarkýli finnast í lærunum. Allt getur þetta valdið sauðfénu ómældum og langvinnum þjáningum og eigandanum miklum fjárhagsskaða.  Hundar geta líka t.d. gert mikinn usla í varplöndum. Það er því aldrei saklaus leikur þegar hundar elta önnur dýr eða bíta, þar kemur veiðieðlið upp í hundinum og hann reynir að ná bráð sinni.

Mikilvægt er að fræða hundaeigendur um ábyrgð sína og eðli hunda; að þeir sleppi aldrei hundum lausum þar sem fé gengur, að þeir kanni hvar hundurinn hafi verið ef hann sleppur úr augsýn einhverja stund og að þeir láti bændur vita ef minnsti grunur leikur á um að hundurinn hafi farið í fé eða aðrar skepnur.

Á sama hátt er mikilvægt að gera hundaeigendum grein fyrir ábyrgð sinni, ef svo illa vill til að hundur bítur fólk.  Mikil hætta er á að slíkur hundur geri það aftur. Ábyrgir hundaeigendur láta svæfa slíka hunda.


Getum við bætt efni síðunnar?