Fara í efni

Hundakórónaveirur líkleg orsök smitandi hundahósta

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Matvælastofnun hafa borist upplýsingar frá Tilraunastöð HÍ að Keldum og Dýraspítalanum í Grafarholti um niðurstöður rannsókna á sýnum sem tekin hafa verið á undanförnum vikum úr hundum með öndunarfæraeinkenni. Í stórum hluta þeirra hafa greinst (PCR) kórónaveirur sem valda sýkingum í öndunarfærum hunda. Er þetta í fyrsta sinn sem þessi veira greinist hér á landi svo vitað sé. Raðgreining verður gerð til staðfestingar. Engin tenging er á milli þeirra og kórónaveirunnar sem veldur COVID-19.

Þessar kórónaveirur kallast á ensku „canine respiratory coronavirus“ sem er skammstafað CRCoV. Þær greindust fyrst í Englandi árið 2003 en eru hluti af þeim stóra hópi sýkla sem valda smitandi öndunarfærasýkingu í hundum sem stundum kallast „hótelhósti“. Flestir sýklar í þessum hópi valda svipuðum einkennum og því er ekki hægt að greina sýkingu af völdum CRCoV út frá einkennum. Öndunarfæra kórónaveirur hunda (CRCoV) eru mjög smitandi eins og greinilega hefur sýnt sig í þeim tilfellum sem komið hafa upp hér á landi að undanförnu. Ekki er nákvæmlega þekkt hvað tekur langan tíma frá því hundur smitast þar til einkenni koma fram, en líklega er aðeins um fáeina daga að ræða. Oftast eru einkenni væg og ganga yfir á innan við tveimur vikum en sýking getur þó þróast yfir í lungnabólgu í einstaka hundi. Þessar veirur eru erfðafræðilega og ónæmisfræðilega ólíkar þeim kórónaveirum sem valda sýkingum í meltingarfærum hunda. Engar vísbendingar eru um að CRCoV geti smitað aðrar dýrategundir eða fólk. 

Ekkert bóluefni er til gegn CRCoV, enn sem komið er. Mikilvægustu aðferðir til að draga úr líkum á smiti er að forðast staði þar sem margir hundar koma saman og halda veikum hundum aðskildum frá öðrum hundum í um þrjár vikur eftir að einkenna verður vart. Rétt er líka að gæta vel allra sóttvarna við umhirðu og umgengni við hundana því smit getur auðveldlega borist með fatnaði og höndum fólks.

Meðhöndlun veikra hunda byggist á mati dýralækna í hverju tilfelli fyrir sig.


Ítarefni:
AVMA Canine Respiratory Coronavirus FAQ: https://www.avma.org/resources/petowners/petcare/canine-respiratory-coronavirus-faq


Getum við bætt efni síðunnar?