Fara í efni

Hollustumerki - merking matvæla

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Hollustumerki er tákn sem sett  er á umbúðir matvæla sem uppfylla ákveðin skilyrði og merkir að varan hafi tiltekna, skilgreinda hollustueiginleika. Markmið með merkinu er að neytendur geti á skjótan hátt valið hollar matvörur við innkaup. Kröfur til matvæla sem fá að bera merkið byggjast á viðurkenndum atriðum er varða samhengi næringar og heilsu. Slíkt merki hefur verið notað í Svíþjóð (sænska skráargatið) frá árinu 1989.

Forsaga


 

Í ágúst 2007 var haldinn fundur forstöðumanna matvælastofnana á Norðurlöndum til að ræða hvort áhugi væri á að taka upp sameiginlegt norrænt hollustumerki við vörumerkingar matvæla. Í apríl 2007 höfðu Danir gert misheppnaða tilraun til að koma sér upp hollustumerki sem mætti mikill andstöðu hjá iðnaði og verslun. Þegar í ljós kom að enginn vildi nota merkið var ákveðið að kanna hvort Norðurlöndin gætu staðið saman að slíku merki. Tekið skal fram að hugmyndafræði danska merkisins var önnur en þess sænska.


Ísland hafði ekki tök á að sækja framangreindan fund en óskaði eftir að fá að fylgjast með gangi máli. Norræna ráðherranefndin hafði einnig  veitt fjármagn til að halda fund í september 2007 til að ræða hvort grundvöllur væri fyrir sameiginlegu norrænu merki. Í framhaldi af þessu tvennu hafa verið haldnir margir fundir og niðurstaðan orðið sú að Danmörk, Noregur og Svíþjóð hafa ákveðið að taka upp sameiginlegt merki. Sjálft merkið verður það sama og Svíar hafa notað (skráargatið) en skilyrðum fyrir notkun þess breytt lítillega. Löndin þrjú hafa komið sér saman um hver skilyrðin skuli vera.

Rætt hefur verið um að kynna merkið fyrir Evrópusambandinu. Mörg dæmi eru um að samstaða Norðurlandanna hafi haft áhrif á matvælalöggjöf sambandsins. Finnar hafa ákveðið að vera ekki með, því þar í landi hefur annað hollustumerki verið notað um nokkurn tíma, svokallað hjartamerki, en skilyrðin sem gilda um notkun þess verða að líkindum aðlöguð að þeim sem gilda munu um norræna skráargatið.
 
Önnur hollustumerki sem tíðkast innan ESB

Nokkur þróun hefur verið á notkun hollustumerkja í Evrópu og hafa mismunandi leiðir verið valdar. Elsta hollustumerkið er sænska skráargatið þar sem 26 matvælaflokkar hafa ákveðin mörk fyrir eitt eða fleiri af eftirfarandi atriðum; fitu, sykur, salt, trefjar, sem vörur innan flokkanna þurfa að uppfylla. Í Finnlandi tíðkast hið svokallaða Hjartamerki og hefur það verið við lýði í nokkur ár. Bretland þróaði Umferðarljósamerkið sem byggir á að fita, mettuð fita, salt og sykur fær hvert sinn lit eftir því hvert innihaldið er. Samtök matvælaframleiðenda í Evrópu (CIAA) komu af stað merki sem byggist á neysluleiðbeiningum, Guidance daily allowance (GDA), og hefur það nú hlotið mikla athygli innan Evrópusambandsins.

Núverandi staða á Norðurlöndum

Eins og áður sagði er vinna Norðurlandanna þriggja um skilyrði hins sameiginlega hollustumerkis nú lokið og hafa þau sent frá sér tilkynningu um reglugerð um notkun þess til umsagnar innan ESB (en. Statutory order on use of the Keyhole label). Í framhaldi af tilkynningu þessari ráðgera löndin setningu reglna í hverju landi fyrir sig sem heimili notkun skrárgatsins við merkingu matvæla. Það eru matvælafyrirtækin sjálf sem ákveða hvort þau nota merkið á umbúðir matvæla sem uppfylla þau skilyrði sem gilda um notkun þess.

Staða málsins á Íslandi

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið hefur nú óskað eftir því að Matvælastofnun  fjalli um málið og skili greinargerð til ráðuneytisins með ábendingum um hvort Ísland skuli taka þátt í þessu samstarfi og til hvaða aðgerða þurfi að grípa ef hollustumerkið verður tekið upp við merkingu matvæla hér á landi.

Matvælastofnun telur nauðsynlegt að hafa samráð við fulltrúa neytenda, matvælafyrirtækja, hagsmunasamtaka og annarra stjórnvalda við mótun afstöðu til þess hvort Ísland verði þátttakandi í þessu samstarfi. Innan skamms mun stofnunin því boða til fundar með ýmsum aðilum til að kynna forsendur fyrir notkun merkisins og heyra sjónarmið þeirra sem málið varðar. Í framhaldi af því mun MAST síðan móta tillögur og senda þær ráðuneytinu til ákvörðunartöku.


Getum við bætt efni síðunnar?