Fara í efni

Hjartaormur greinist í innfluttum hundi

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Hjartaormurinn Angiostrongylus vasorum greindist í sýni úr hundi sem fluttur var til landsins nú í Desember og dvelur í einangrun. Um er að ræða sníkjuþráðorm. Ormasýkingin var greind af sníkjudýrafræðingum á Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum. Hjartaormurinn hefur ekki greinst áður á Íslandi. Hundurinn hafði ekki sýnt einkenni sýkingar en meðhöndlun hófst um leið og niðurstaða greiningar lá fyrir.

Hjartaormurinn finnst víða í Evrópu, Ameríku og Afríku og svo virðist sem útbreiðsla hans sé að aukast en sú aukning er talin tengjast hlýnandi loftslagi og auknum ferðalögum fólks með hunda.  Hjartaormurinn sýkir refi og hunda en millihýslar ormsins eru ýmsar sniglategundir. Ormurinn er ekki sértækur á sniglategundir og hugsanlegt er að íslenskar sniglategundir gætu hentað sem millihýslar. Talið er að smit berist í hunda þegar þeir éta smitaða snigla (sem t.d. halda sig í grasi) en smit getur ekki borist beint frá hundi til hunds. Fólki stafar ekki hætta af hjartaorminum. 

Einkenni hjartaormasmits eru misalvarleg en algengust eru hósti, mæði, slappleiki og lystarleysi. Alvarlegar sýkingar geta leitt til dauða. Fullorðnir ormar halda sig í lungnaslagæðum og í hægri hlið hjartans en lirfur ormsins ferðast um lungnavefinn og valda þar skemmdum. Örugg greining fæst með því að finna lirfur ormsins í saursýni. 

Árlega eru 150-250 hundar fluttir til Íslands og við komu þeirra í einangrun eru tekin sýni sem rannsökuð eru m.a. með tilliti til sníkjudýra. Ýmis sníkjudýr greinast reglulega í þessum sýnum og meðhöndlun fer þá fram á meðan á einangrun stendur. Með þessu móti er útbreiðsla smits inn í landið hindruð eins og kostur er.    

Vel verður fylgst með heilsufari viðkomandi hunds og allar nauðsynlegar ráðstafanir gerðar til þess að uppræta smitið. 

Nánari upplýsingar veitir Þorvaldur H. Þórðarson framkvæmdastjóri Markaðsstofu Matvælastofnunar; thorvaldur.thordarson@mast.is



Frétt uppfærð 20.12.17 kl 15:14



Getum við bætt efni síðunnar?