Fara í efni

Hestainflúensa breiðist út á heimsvísu

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Hestainflúensa greindist í fyrsta sinn í Ástralíu þann 17. ágúst s.l. en landið hafði fram að því, ásamt Nýja Sjálandi og Íslandi, haft þá sérstöðu að vera laust við þennan alvarlega hrossasjúkdóm. Í flestum öðrum löndum er hestainflúensa landlæg eða hefur einhverntíman komið upp.


Ástralir og Nýsjálendingar hafa, öndvert við Íslendinga, heimilað innflutning lifandi hrossa eftir ströngum reglum og eftirliti í einangrunarstöðvum. Það fyrirkomulag hefur gengið áfallalaust í áratugi og gert Áströlum kleyft að halda alþjóðlega hestaviðburði s.s. Ólympíuleikana árið 2002.


Það var þó einmitt í slíkri einangrunarstöð í Sydney (New South Wales) sem hestainflúensan kom upp og barst í hestamiðstöð í Sydney. Þrátt fyrir öfluga viðbragðsáætlun breiddist veikin hratt út og hafði greinst á 214 stöðum í Sydney og Queensland í byrjun september. Um miðjan september hafði veikin komið upp á 1064 stöðum í þessum tveimur fylkjum. Þá þegar var farið að undirbúa innflutning á bóluefni gegn sjúkdómnum. Undir lok mánaðarins var fjöldi sýktra staða kominn yfir 3000 með yfir 30 þúsund hrossum og orðið ljóst að ekki væri hjá því komist að hefja bólusetningar. Byrjað var að bólusetja á varnarsvæðum í nágrenni sýktra svæða í þeim tilgangi að stöðva útbreiðsluna. Enn eru bundnar vonir við að ekki þurfi að bólusetja hross í öðrum fylkjum.


Nú er ljóst að uppruna þessa máls má rekja til þess að sjúkdómurinn hafði borist til Japan í byrjun ágúst en ekki uppgötvast fyrr en 15 ágúst. Í millitíðinni voru 13 stóðhestar (shuttle stallions) fluttir frá Japan til Ástralíu. Hestarnir voru nýlega bólusettir gegn hestainflúensu  sem kann að hafa leitt til þess að þeir höfðu lítil sem engin klínísk einkenni þrátt fyrir að vera smitaðir.


Viðbrögð við hestainflúensu í Ástralíu eru stórtækustu varnaraðgerðir gegn sjúkdómafaraldri í dýrum í sögu Ástralíu og hafa nú þegar kostað mikla fjármuni. Sömuleiðis hefur hestaiðnaðurinn tapað stórfé þar sem allir viðburðir hafa fallið niður í umræddum fylkjum og eitthvað er um að hross hafi drepist. Í löndum þar sem hestainflúensa er landlæg fara miklir fjármunir í að halda sjúkdómnum niðri með bólusetningum og varnaraðgerðum í tengslum við öll mót og sýningar. Það er því mikið í húfi að stöðva faraldurinn.


Helsta smitleiðin er frá hesti til hests með loftbornu smiti s.s. hósta og hnerra.  Fólk getur þó auðveldlega borið smit á milli hesta utan á sjálfu sér eða búnaði. Sýnt hefur verið fram á að smitefnið getur lifað utan hýsils, á fötum o.fl., í 48 tíma. Útbreiðslu hestainflúensu á að vera hægt að stöðva með varnaraðgerðum þar sem sýkt hross skilja smitefnið út í takmarkaðan tíma (2 - 3 vikur). Áhrif varnaraðgerðanna eru þó háðar því að strax sé tilkynnt um öll sýkt hross (og hugsanlega sýkt), alla staði sem sýkt hross gæti verið að finna (tengsl við sýkta staði) og að flutningsbann á hrossum og kröfur um hreinlæti séu að fullu virtar. Þetta krefst því náinnar samvinnu við hestaeigendur. 



Hvaða lærdóm getum við dregið ?


Bann við innflutningi hrossa er að sjálfsögðu öflugasta varnaraðgerðin gegn því að hestainflúensa og fleiri skæðir hrossasjúkdómar berist hingað til lands. Einnig er bannað að flytja til landsins notuð reiðtygi og reiðfatnað sem ekki er hægt að sótthreinsa. Allur búnaður úr leðri og efnum sem ekki er hægt að þvo í þvottavél eða leggja í bleyti í Virkon®, fellur undir þá skilgreiningu. Allir sem umgangast hesta verða einnig að gæta að almennu hreinlæti þegar farið er á milli landa.


Það segir sig sjálft að eftirlit með innflutningi á  búnaði og fatnaði sem notaður hefur verið við hestamennsku, getur verið erfiður og því er alltaf hætta á að sjúkdómurinn berist til landsins. Fræðsla og auglýsingar á þessum reglum eru mikilvægustu forvarnirnar.


Viðbragðsáætlun hefur verið útbúin fyrir sjúkdóminnn, berist hann til landsins, og er hún að miklu leyti að ástralskri fyrirmynd. Við vitum nú að þrátt fyrir góða viðbragðsáætlun er hætt við að ekki takist að hindra útbreiðsluna, og alls ekki innan hesthúsahverfa. Það mun skipta mestu máli hversu fljótt sjúkdómurinn uppgötvast og þar af leiðandi hversu snemma varnaraðgerðir taka gildi. Það verður því ekki brýnt nógu oft fyrir hestamönnum að tilkynna strax um grun um smitsjúkdóm eins og skylt er skv. lögum um varnir gegn smitsjúkdómum í búfé.



Getum við bætt efni síðunnar?