Heimtekin villibráð
Matvælastofnun vekur athygli á nýrri reglugerð nr. 655/2011 sem gefin var út af sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu þann 1. júlí 2011 um breytingu á reglugerð nr. 637/2005 um verkunarstöðvar fyrir hreindýrakjöt.
Helsta ástæða reglugerðarbreytingarinnar er að Matvælastofnun og Heilbrigðiseftirlit Austurlands (HAUST) hafa sterkar vísbendingar um að talsvert af hreindýrakjöti sé á boðstólum meðal annars á veitingastöðum, sem ekki hefur verið heilbrigðisskoðað, flutt eða meðhöndlað í vinnslustöðvum sem hafa starfsleyfi. Árlega eru seld veiðileyfi á um það bil 1000 til 1300 hreindýr, en einungis um 15 % (184 dýr árið 2010) af dýrunum fóru í gegnum einu löggiltu verkunarstöðina, og engin dýr komu til skoðunar í sláturhúsum.
Hluti vandans felst í því að hluti þeirra dýra sem eru heilbrigðisskoðuð eru í framhaldinu tekinn heim af veiðimönnum en með því slitnar órofin kælikeðja afurðanna. Með þessari breytingu er verið að tryggja að það kjöt sem fer beint frá verkunarstöð hafi áfram lögbundna heilbrigðismerkingu, en kjöt af sama dýri sem veiðimaður velur að taka til eigin nota og ráðstöfunar verði sérstimplað " HEIMTEKIN VILLIBRÁÐ", auk lögbundinnar heilbrigðismerkingar.
Þannig geta veitingahús greint á milli þess kjöts sem þeim er boðið og einungis verið með löglega verkað kjöt á sínum matseðlum. Þannig á ekki að vera mögulegt að selja áfram kjöt sem hefur þessa nýju merkingu, enda ekki hægt að tryggja öryggi þess í áframhaldandi geymslu og flutningi hjá einkaaðila sem ekki hefur starfsleyfi, né er háður opinberu eftirliti.
Samhliða þessari breytingu á reglugerðinni er fyrirhugað að fylgja málinu eftir af hálfu Heilbrigðiseftirlita sveitarfélaganna, með átaki í eftirliti á veitingastöðum og verslunum til að tryggja að einungis heilbrigðisskoðað kjöt sé á boðstólum.
Ítarefni