Fara í efni

Heilsufullyrðingar – gerum betur!

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Fullyrðingar geta verið gagnlegar við markaðssetningu matvæla, bæði fyrir seljendur til að koma áleiðis skilaboðum um eiginleika og samsetningu vara og fyrir neytendur við val á matvælum. En þar sem þessar upplýsingar eru ekki að koma frá hlutlausum aðilum er mikilvægt að regluverk tryggi að neytendur séu ekki blekktir.

Hvað er fullyrðing?

Í hugum margra er fullyrðing einhver yfirlýsing þar sem fast er á kveðið um að tiltekið efni eða vara hafi ákveðna eiginleika. Í skilningi þeirra reglna sem gilda um fullyrðingar hér á landi sem og annarsstaðar í Evrópu er hugtakið fullyrðing þó mun víðara og nær bæði yfir beinar fullyrðingar og það þegar gefið er í skyn eða látið að því liggja að matvæli eða innihaldsefni þess hafi tiltekna eiginleika. Fullyrðing eins og „efnið X er talið hafa jákvæð áhrif á sjón“ eða frásögn einstaklings um að hann hafi notað vöruna X og það hafi haft góð áhrif á sjón þurfa því að lúta sömu reglum og fullyrðingin „efnið X hefur jákvæð áhrif á sjón“ séu þær notaðar við kynningu á matvælum.

Sjúkdómsfullyrðingar

Fullyrðingar og tilvísanir um að matvæli eða innihaldsefni þeirra hafi lækningamátt eða geti fyrirbyggt eða unnið á sjúkdómum manna, s.k. sjúkdómsfullyrðingar, eru óleyfilegar. Dæmi um slíkt eru „gegn kvefi“ og „minnkar bólgur og gigtareinkenni“. 

Heilsufullyrðingar

Heilsufullyrðingar eru fullyrðingar og tilvísanir sem tengja saman matvæli eða innihaldsefni þeirra og heilsu/heilbrigði. Heilsufullyrðingar geta ýmist verið ósértækar fullyrðingar um að vara sé „holl“ eða sértækari fullyrðingar sem tengja matvæli við hlutverk efnis í vexti, þroskun og starfsemi líkamans, sálræna eða atferlislega starfsemi, megrun og þyngdarstjórnun eða frammistöðu í íþróttum. Vöruheiti geta falið í sér heilsufullyrðingu.

Aðeins má nota heilsufullyrðingar séu þær á lista yfir leyfilegar heilsufullyrðingar. Algengast er að heilsufullyrðingar séu leyfðar fyrir tiltekin innihaldsefni, en ekki fyrir vörur. Heilsufullyrðingar sem leyfðar eru fyrir ákveðin innihaldsefni má ekki yfirfæra á vöruna sjálfa. T.d. er leyfð fullyrðing „C-vítamín eykur upptöku járns“. Þá má ekki fullyrða um vöru sem inniheldur C-vítamín „varan X eykur upptöku járns“.

Staðan á markaðnum, hverjir bera ábyrgðina?

Regluverk er til staðar sem gildir um fullyrðingar í allri kynningu matvæla, hvort sem það eru upplýsingar á umbúðum, í auglýsingum eða annarri kynningu. Ábyrgðin á að reglunum sér fylgt er alltaf hjá fyrirtækjunum sjálfum. Ljóst er að víða er pottur brotinn hvað þetta varðar og sjást fullyrðingar sem ekki eru í samræmi við reglur. Allt síðan í desember 2012 hefur verið í gildi listi um heilsufullyrðingar sem heimilt er að nota. Fyrirtæki eru hvött til að kynna sér reglur um heilsu- og næringarfullyrðingar hér að neðan og gera betur í að framfylgja þeim í því augnamiði að koma til skila réttum upplýsingum til neytenda.

Ítarefni


Getum við bætt efni síðunnar?