Fara í efni

Heilnæmi kræklings

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Matvælastofnun og Hafrannsóknarstofnunin hafa komið sér saman um að vakta eitraða þörunga í Hvalfirði eins og undanfarin ár.  Hafrannsóknarstofnunin mun annast greiningar á eitruðum þörungum og Matvælastofnun annast söfnun sýna. Tilgangur þörungavöktunar er að safna upplýsingum um eitraða þörunga í Hvalfirði svo hægt sé að veita þeim sem hyggja á tínslu kræklings yfir sumarmánuðina upplýsingar um hvort hætta sé á þörungaeitri í kræklingum og öðrum tegundum skelfisks.

Skyldur Matvælastofnunar hvað varðar vöktun á eitruðum þörungum snúa fyrst og fremst að þeim sem  veiða og rækta krækling til markaðssetningar. Ekki er heimilt að markaðssetja krækling eða aðrar samlokur frá svæðum sem ekki hafa verið vöktuð. Skilyrði til markaðssetningar á kræklingi eru að hann komi frá svæðum sem hafa verið skilgreind, könnuð með tilliti til örverumengunar og annarra mengunarefna, vöktuð með tilliti til eitraðra þörunga og þörungaeiturs og að kræklingurinn sé hreinsaður og pakkaður í afgreiðslustöð sem hefur fengið leyfi frá MAST til starfseminnar.

Veitingahús og verslanir mega því ekki taka á móti kræklingi nema hann komi frá viðurkenndu veiði eða ræktunarsvæði og sé pakkað í afgreiðslustöð. Pakkningar eiga að vera með merkimiða og á honum  á að vera auðkennismerki sem líta má á sem staðfestingu á því að kræklingurinn komi frá svæði sem eru undir eftirliti MAST. Það er því með öllu óheimilt að dreifa kræklingi sem safnað hefur verið í Hvalfirði til neytenda, því þörungavöktunin ein sér segir ekki nauðsynlega til um hvort þörungaeitur sé að finna í skelfiski.

Vöktun undanfarinna ára hefur leitt í ljós að eitraðir þörungar hafa greinst yfir viðmiðunarmörkum í Hvalfirði yfir sumarmánuðina og fram á haust. Niðurstöður vöktunar má sjá á heimasíðum MAST og Hafrannsóknarstofnunarinnar, en einnig hefur Hafrannsóknarstofnunin gefið út skýrslur ár hvert þar sem niðurstöður þörungavöktunar eru kynntar.

Þumalfingursreglan „að ekki skuli tína krækling í mánuðum sem ekki innihalda R“ er góð og gild fyrir svæði þar sem ekki er haft eftirlit með eitruðum þörungum eða þörungaeitri. Þó geta haustin verið varasöm til skeltínslu, en mesta hættan á uppsöfnun þörungaeiturs  í kræklingi er yfir sumartímann.


Getum við bætt efni síðunnar?