Fara í efni

Grunur um miltisbrand í beinaleifum

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Við jarðvegsvinnu vegna nýbygginga í Garðabæ hafa fundist bein sem hugsanlega eru af nautgrip sem grunur leikur á að sé sýktur af miltisbrandi. Vitað er að á þessu svæði drapst nautgripur af völdum miltisbrands á stríðsárunum. Ekki er þó vitað hvort þessar beinaleifar séu frá dýri sem sýkst hafi af miltisbrandi. Unnið er að því að fjarlægja allar dýraleifar sem fundust við uppgröftinn undir eftirliti héraðsdýralæknis.

Afar ólíklegt er að fólki stafi hætta af sýkingu af völdum miltisbrands sem kann að tengjast umræddum beinafundi. Ef gró miltisbrands eru til staðar í jarðvegi eru það dýr sem eru í hættu að sýkjast en mannfólki stafar einungis hætta af dauðum sýktum dýrum sem það meðhöndlar eða handfjatlar með einhverjum hætti. 

Ekki er ástæða til að grípa til sérstakra aðgerða vegna þeirra manna sem unnið hafa jarðvegsvinnu á svæðinu. Hins vegar eru þessir einstaklingar hvattir til að leita læknis ef þeir verða varir við húðsýkingu þar sem að miltisbrandur getur leitt til húðsýkingar hjá fólki sem unnt er að lækna með sýklalyfjum.

Það skal ítrekað að ekki liggur ljóst fyrir hvort beinin eru frá dýri sem drepist hefur af völdum miltisbrands.


Getum við bætt efni síðunnar?