Fara í efni

Grænar kartöflur - gölluð vara

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Ef þess er ekki gætt að forða kartöflum frá birtu taka þær fljótt á sig grænan lit. Ljósið kemur af stað myndun blaðgrænu og gerist það hraðar við háan hita en lágan. Rauðar kartöflur grænka líka þótt það sjáist ekki eins vel vegna rauða litarins. Samhliða grænkuninni getur ljósið einnig valdið aukningu á magni efnasambanda, svokallaðra glýkóalkalóíða, m.a. sólaníns, sem gefa kartöflunum beiskt bragð og gera  þær  óheilnæmar  til  matar  fari magn þeirra yfir
ákveðin mörk. Mjög ólíklegt er að magn þessara efnasambanda fari upp í slík mörk í þeim kartöfluafbrigðum sem hér eru ræktuð þótt kartöflurnar fái á sig daufgrænan lit í verslunum. Til þess þyrftu þær að vera lengi úti í sólarljósi. Hins vegar er mjög eðlilegt að viðskiptavinir verslana séu tortryggnir út í grænar kartöflur og líti á þær sem gallaða vöru.

Kartöflur eiga ekki að vera grænar. Það hlýtur því að vera kappsmál fyrir metnaðarfullar matvöruverslanir að bjóða viðskiptavinum sínum eingöngu upp á grænkufríar kartöflur. Til þess að það megi verða þarf að huga að því á öllum stigum að hlífa kartöflunum við birtu eins og hægt er, hjá ræktandanum, heildsöludreifingunni og loks hjá smásölunni. Þurfi kartöflur að standa einhvern tíma á björtum og heitum geymslustað má t.d. breiða yfir þær með svartri yfirbreiðslu en kartöflur eiga að vera sem allra mest í kæli. Sérstaklega þarf að huga að uppstillingu vörunnar í versluninni og þá sérstaklega þar sem kartöflurnar eru seldar í lausu. Þar þarf að sjá til þess að sem minnst bein lýsing falli á kartöflurnar og að þær stoppi þar sem styst við. Má t.d. skerma þær þannig af að þær séu í skugga og er ekki nokkur vafi á að margir viðskiptavinir munu meta þær ráðstafanir sem gerðar eru til að tryggja þeim gæðakartöflur.


Ráðleggingar:


  • Framleiðendur og pökkunaraðilar eiga að flokka grænar kartöflur frá í framleiðslu.

  • Pökkunaraðilar verða að sjá til þess að kartöflurnar séu geymdar í myrkri meðan þær eru í vörslu hjá þeim.

  • Verslanir verða að sjá til þess að sem minnst lýsing sé á kartöflum meðan þær eru í búðinni, t.d. geyma þær í dimmum kössum sem viðskipavinir taka kartöflurnar úr eða í dökkum umbúðum.

  • Neytendur ættu að geyma kartöflur á dimmum stað heima fyrir.

  • Varist að borða skemmdar og/eða grænar kartöflur.


Nánari upplýsingar um sólanín er að finna hér.Getum við bætt efni síðunnar?