Fara í efni

Gott eftirlit með salmonellu á Íslandi

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Eftirlit Matvælastofnunar með salmonellu í alifuglum og svínum er í samræmi við löggjöf Evrópska efnahagssvæðisins (EES). Þetta er niðurstaða skýrslu sem eftirlitsstofnun EFTA (ESA) gaf út í dag en stofnunin framkvæmdi úttekt á Matvælastofnun í september síðastliðnum.

Skýrslan byggir á eftirlitsheimsókn ESA til Íslands 10. - 14. september þar sem úttekt var gerð á eftirliti Matvælastofnunar með súnum, þ.e.a.s. sjúkdómum og/eða sýkingum sem geta borist á milli dýra og manna. Tilgangur heimsóknarinnar var að ganga úr skugga um að eftirlit uppfylli kröfur matvælalöggjafar EES, með sérstakri áherslu á salmonellu. 

Niðurstaða skýrslunnar er að eftirlit er almennt fullnægjandi og að eftirlit með salmonellu í alifuglum gangi enn lengra hér á landi en kröfur löggjafarinnar segja til um. 

Í skýrslunni má finna ábendingar um atriði sem bæta má, einkum samstarf og samræmingu milli Matvælastofnunar og heilbrigðiseftirlits sveitarfélaga. Athugasemdir ESA eru nú til meðferðar hjá Matvælastofnun og má finna í skýrslu ESA hér að neðan.

Ítarefni


Getum við bætt efni síðunnar?