Fara í efni

Góð ráð við grillið

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Við undirbúning, eldun og framreiðslu matvæla sem fara á grillið þarf ávallt tvennt til að koma í veg fyrir krossmengun. Eina töng fyrir hrátt kjöt og eina fyrir grillað kjöt, eitt fat fyrir hrátt kjöt og eitt fyrir grillað kjöt. Tvær grundvallarreglur gilda fyrir alla matseld og þær eru:


  • Matvæli verða að ná a.m.k. 75°C í gegn, en sérstaklega mikilvægt er að gegnumsteikja unnar kjötvörur s.s. hamborgara

  • Kælið afganga hratt niður, helst í kæliskáp (0-4°C)


Krossmengunin er algengasta smitleiðin og því er mjög mikilvægt að blóðvökvi komist ekki í snertingu við tilbúinn mat og sallöt. Sjá einnig bæklinginn: Góð ráð við grillið

Kæling

 


Nú þegar ferðamannatíminn stendur sem hæst, er mikið um að fólk kaupi kjöt og kjötvörur til grilla eða bara til að hafa sem nesti í ferðalaginu, án þess að hafa í huga hvernig er réttast að geyma matinn á meðan á ferðalaginu stendur. Matvælastofnun vill því benda á mikilvægi meðferðar matvæla á ferðalaginu.


Það getur haft alvarlegar afleiðingar að geyma matvöru við of hátt hitastig, því vöxtur m.a. sjúkdómsvaldandi örvera eykst verulega. Því er það ljóst að matvara sem ekki verður hituð fyrir notkun (salöt, sósur, álegg osfrv.) og matvara sem ekki er gegnumsteikt/grilluð getur valdið matarsýkingu.

Til að tryggja öryggi neytenda hafa verið sett fram eftirfarandi viðmiðunarmörk:


  • Kælivöru á að geyma við 0-4°C.

  • Matvæli sem á að framreiða köld verður að kæla fljótt og vel og geyma við sama hitastig. Við upphitun þurfa matvæli að gegnhitna í 75°C.
  • Við flutning og afhendingu/móttöku verður hitastig einnig að haldast rétt allan tímann. Hitastigskeðjan má hvergi rofna. Engin keðja er sterkari en veikasti hlekkurinn.


Kjúklingur

Sjá eftirfarandi leiðbeiningar um rétta meðhöndlun á hráum kjúklingi.


Getum við bætt efni síðunnar?