Gin- og klaufaveiki í Slóvakíu
Gin- og klaufaveiki hefur nú greinst á þremur búum í suðurhluta Slóvakíu, í þorpunum Medvedov, Narad og Baka. Gripið hefur verið til umfangsmikilla varúðarráðstafana til að hindra dreifingu smitsins, bæði af hálfu slóvakískra yfirvalda og Evrópusambandsins. Öll klaufdýr á viðkomandi búum verða aflífuð og um 2000 nautgripir í nágrenni búanna verða bólusett. Bólusetningin er eingöngu til að draga úr útbreiðslu, aflífa þarf bólusett dýr síðar þar sem þau geta verið frískir smitberar.
Líklegt er að smitið hafi borist frá búi í Ungverjalandi þar sem veikin greindist fyrir tveimur vikum síðan. Eins og fram kom í frétt Matvælastofnunar sem birt var 7. mars sl. er gin- og klaufaveiki mjög alvarlegur og bráðsmitandi dýrasjúkdómur. Veiran sem veikinni veldur er mjög harðger og getur borist mörg hundruð kílómetra með lofti. Aðrar helstu smitleiðir eru flutningur á sýktum lifandi dýrum og afurðum sýktra dýra.
Matvælastofnun vill ítreka áminningu til fólks sem ferðast til landa þar sem gin- og klaufaveiki er til staðar að gæta ávallt hreinlætis í umgengni við dýr og þrífa skófatnað og þvo föt sem hafa verið í snertingu við dýr, áður en komið er heim. Sérstaklega á þetta við fólk sem á sjálft dýr eða starfar í tengslum við dýr. Jafnframt er gífurlega mikilvægt að gæta þess að klaufdýr komist ekki í óhitameðhöndluð matvæli.
Nánari upplýsingar um gin- og klaufaveiki koma fram í frétt sem birt var á heimasíðu Matvælastofnunar 7. mars sl.
Fréttir um málið má sjá á Slóvakíska fréttamiðlinum Teraz (https://www.teraz.sk/).