Fara í efni

Garnaveiki í sauðfé í Mývatnssveit

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Nýverið var garnaveiki staðfest á bæ í Skútustaðahreppi sem er í Skjálfandahólfi. Bóndinn greindi einkenni í tveimur kindum, kallaði til dýralækni og í kjölfarið var sent sýni á Keldur og var veikin staðfest í liðinni viku. Síðast greindist garnaveiki í Skútustaðahreppi árið 2013.

Garnaveiki er tilkynningaskyldur sjúkdómur af völdum bakteríunnar Mycobacterium paratuberculosis sem er náskyld berklabakteríunni. Smitið berst með saur en bakterían leggst einkum á slímhúð mjógirnis þar sem hún veldur langvinnum bólgum.  Einkenni koma fram um það bil einu til tveimur árum eftir smit og og lýsa sér helst í vanþrifum og skitu, og geta í sumum tilvikum dregið kindur til dauða.  Þekkt er að heilbrigðir smitberar geti viðhaldið sjúkdómnum á sauðfjárbúum.

Engin lækning er þekkt við garnaveiki. Þó er hægt að bólusetja gegn sjúkdómnum en skylt er að bólusetja fé á þeim svæðum landsins þar sem hún er landlæg. Einnig er óheimilt að flytja sauðfé, geitur eða nautgripi til lífs frá garnaveikibæjum í tíu ár frá síðustu greiningu sjúkdómsins á viðkomandi bæ. Mikilvægt er að huga að því að smit getur borist með landbúnaðartækjum, heyi, áburði o.fl. en flutningur á öllu slíku frá garnaveikibæjum er einnig óheimill.

Í gildi er reglugerð nr. 911/2011 um garnaveiki og varnir gegn henni en markmið hennar er að stuðla að útrýmingu garnaveiki í jórturdýrum. 


Getum við bætt efni síðunnar?