Fara í efni

Garnaveiki í Mývatnssveit

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Garnaveiki hefur greinst í sauðfé á Félagsbúinu Gautlöndum í Mývatnssveit.  Sjúkdómurinn uppgötvaðist þegar nokkrar kindur veiktust með torkennileg sjúkdómseinkenni. Dýralæknir búsins sendi þá sýni í samráði við héraðsdýralækni til Tilraunastöðvarinnar á Keldum, þar sem sjúkdómurinn var staðfestur. Gautlönd eru í Skjálfandahólfi. Í Mývatnssveit hefur ekki verið garnaveiki í að minnsta kosti 60 ár og garnaveiki hefur aldrei verið mjög útbreidd í þessu sauðfjárveikivarnarhólfi.  Þess vegna var hætt að bólusetja fé við veikinni fyrir 10 – 15 árum þegar hennar hafði ekki orðið vart í hólfinu í 10 ár en það var í Aðaldal 1988.

Garnaveiki  er ólæknandi smitsjúkdómur, sem leggst á öll jórturdýr; sauðfé, geitur, nautgripi og hreindýr. Orsökin er lífseig baktería af berklaflokki (Mycobacterium avium s.s.paratuberculosis). Hún veldur bólgum í mjógörn og oft einnig í langa, ristli og lifur. Sýklarnir berast út með saurnum og geta lifað 1- 1 ½ ár í óhreinindum og pollum umhverfis gripahús, við afréttargirðingar, í sláturúrgangi og í líffærum skepna sem drepast út um haga. Sýking verður um munn með saurmenguðu fóðri og vatni. Meðgöngutími í fé er 1-2 ár eða lengri. Hægt er að halda veikinni niðri með bólusetningu lamba á haustin og gefur ein bólusetning ævilangt ónæmi.

Ekki er vitað hvernig sjúkdómurinn barst að Gautlöndum en líkur eru á að hann hafi verið nokkur ár að búa um sig þar án þess að bændur hafi getað áttað sig á því. Þess vegna er óhjákvæmilegt að hefja bólusetningu á fé í varnarhólfinu aftur. Á næstu dögum verður tekin ákvörðun um hve víðtæk  bólusetningin verður og hvernig að henni verður staðið.

Mikilvægt er að bændur í Skjálfandahólfi láti Ólaf Jónsson héraðsdýralækni vita í síma 530 4800 ef þeir hafa orðið varir við að fullorðnar kindur hafi verið að dragast upp með skituköst undanfarin misseri.

Héraðsdýralæknir og dýralæknir nautgripa- og sauðfjársjúkdóma hjá Matvælastofnun munu hitta bændur í hólfinu á fundi í Mývatnssveit n.k. mánudag 4. febrúar.

Ítarefni


Getum við bætt efni síðunnar?