Fara í efni

Gætum að grillinu!

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Með hækkandi sól og björtum sumarkvöldum skríða landsmenn út úr húsum sínum, taka fram grillin og matreiðslan flyst að hluta til út undir bert loft. Ástæða er til að minna á reglur um meðferð matvæla svo koma megi í veg að heimilisfólk og gestir grillmeistarans fái matarsýkingu.


  • Þvoið hendur  áður en hafist er handa við tilreiðslu kjöts og annarra matvæla og eftir snertingu við hrátt kjöt.
  • Gætið þess að kjöt eða safi úr kjöti komist ekki í snertingu við matvæli sem eru tilbúin til neyslu svo sem grænmeti og kaldar sósur.
  • Við grillun er mælt með því að nota tvær tengur; eina fyrir hrátt kjöt og aðra fyrir grillað kjöt.
  • Setið kjötið ávallt  á hreint fat  að lokinni grillun. Góð regla er að fjarlæga það fat sem hráa kjötið var á þegar allt kjötið er komið á grillið.

 


  Með því að fylgja þessum ráðleggingum má koma í veg fyrir mengun á  grilluðu kjöti og meðlæti s.s grænmeti, kartöflum og sósum og grillmáltíðin í faðmi fjölskyldu og vina skilur eftir sig góðar minningar.

Við grillun er mikilvægt að logi leiki ekki um matvælin þannig að þau brenni. Brenni yfirborð matvælanna geta myndast skaðleg og krabba-meinsvaldandi efni. Það er því mikilvægt að skera frá alla brennda hluta áður en matvælanna er neytt.   

E. coli sýkingin í Þýskalandi hefur vakið athygli og ótta meðal neytanda. Það er þó ekkert sem bendir til þess að grænmeti sem hefur verið á markaði hérlendis hafi verið mengað. Matvælastofnun vill samt sem áður benda á mikilvægi hreinlætis við meðferð á grænmeti og ávöxtum.


  • Gætið  ávallt fyllsta hreinlætis við meðferð á grænmeti og ávöxtum í eldhúsinu.
  • Skolið grænmeti og ávexti fyrir notkun og gætið  þess að jarðvegur sem stundum fylgir grænmeti berist ekki í önnur matvæli.
  • Þrífið  hnífa, skurðarbretti, vinnuborð og hendur vandlega  eftir meðhöndlun og skurð  á grænmeti.


Hafið ávallt hreinlætið í fyrirrúmi  við eldamennskuna hvort sem matreiðslan  fer fram inni í eldhúsi eða úti undir beru lofti.

Matvælaöryggisstofnun Evrópu EFSA og Sóttvarnastofnun Evrópu ECDC  hafa í samvinnu gefið út ráðleggingar til neytenda um hvernig megi fyrirbyggja sýkingar og þær má sjá hér.

Ítarefni





Getum við bætt efni síðunnar?